Lilja Alfreðsdóttir hefur ítrekað lofað því að strax í haust komi hún fram með tillögur að verulegum umbótum í rekstrarumhverfi fjölmiðla. Umræðan um erfiðar aðstæður íslenskra fjölmiðla vegna tilvistar RÚV á auglýsingamarkaði hefur staðið yfir árum saman. Löggjafinn gerir sér ljóst að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu og mikilvægt er að skapa þeim viðunandi rekstrarumhverfi. Það gæti helst gerst með því að RÚV færi alveg út af auglýsingamarkaði og til vara að umsvif RÚV yrðu takmörkuð verulega.
Nýr menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, hefur lofað umbótum. Loforð sín hefur hún margítrekað og vísað til þess að tillögur komi fram strax eftir sumraleyfin. Vel verður fylgst með því hvort loforð ráðherra verða efnd. Forverar hennar hafa svikið marggefin loforð og sjálf hét hún því í kosningabaráttunni sl. haust að fella niður virðisaukaskatt af bókum STRAX. Talið er að hún hafi komist inn á þing út á þetta fallega loforð. En þegar kosningum var lokið, Lilja komin í skjól og þingið byrjað að afgreiða lög, þá var ekki hægt að fella niður VSK af bókum. Ekki núna, seinna, sagði hún þá. Tíminn of naumur. En tíminn var ekki of naumur til að tvöfalda framlög ríkisins til stjórnmálaflokka. Alþingi gaf sér ráðrúm til þess.
Lilja Alfreðsdóttir hefur viðrað ýmsar hugmyndir um stuðning við frjálsa fjölmiðla. Við skulum láta hana njóta vafans og gefa henni tóm til að koma fram með ráðstafanir sem skipta máli. Það þarf að muna um þær tillögur sem menntamálaráðherra kemur fram með og tryggir stuðning við í þinginu. Mikilvægast er að taka RÚV út af auglýsingamarkaði. Þá væri vel til fundið að fella algerlega niður VSK af allri fjölmiðlastarfsemi samhliða því að hann verði felldur niður af bókum. Menn verða að átta sig á því að fjölmiðlar eru í samkeppni við alþjóðlega miðla sem borga enga skatta á Íslandi – enda er ekki hægt að koma því við – og því er samkeppnisstaðan bjöguð og ósanngjörn.
Flestir íslenskir fjölmiðlar hafa verið reknir með miklu tapi á síðari tímum. RÚV fær marga milljarða úr ríkissjóði ár hvert til að ná endum saman. Morgunblaðið hefur tapað gífurlegum fjárhæðum frá því að hagnaðarrekstri lauk um síðustu aldamót. Tvisvar hefur útgáfufélag blaðsins fengið milljarðaniðurfærslur skulda hjá ríkisbönkunum og nýjir eigendur, sægreifar og bændur, hafa lagt útgáfunni til milljarða í hlutafé og framlögum eftir að þeir komu að rekstri blaðsins. DV, Pressan og Eyjan hafa farið í þrot oftar en einu sinni, tímarit hafa barist í bökkum, 365 miðlar hafa skipt um eigendur og minni miðlar eins og Kjarninn, Stundinn, Hringbraut, N-4 sjónvarp og Útvarp Saga hafa verið rekin með tapi ár eftir ár. Þá varð ÍNN gjaldþrota eins og reyndar fleiri smærri fjölmiðlar.
Vilji löggjafinn tryggja frjálsa fjölmiðlastarfsemi á Íslandi og telji þeir það mikilvægt fyrir lýðræðið, þá dugar ekkert hálfkák núna. Lilja Alfreðsdóttir hefur tækifæri til að skrá nafn sitt í söguna ef hún kemur í gegn marktækum umbótum í fjölmiðlaumhverfi þjóðarinnar.
Lilja hefur einstarkt tækifæri til að festa sig í sessi sem stjórnmálamaður. Í menntamálaráðuneytinu hefur ekkert gerst frá hruni. Lilja hefur metnað og hún vill ekki verða fjórði verklausi menntamálaráðherrann í röð. Það er vel varðveitt leyndarmál að Katrín Jakobsdóttir kom engu í verk sem menntamálaráðherra árin 2009 til 2013. Illugi Gunnarsson tók þá við og dvaldi í ráðuneytinu í þrjú og hálft ár. Ekkert liggur eftir hann frá þeim tíma. Kristján Þór Júlíusson varð því næst menntamálaráðherra frá því snemma árs 2017 til loka nóvember í fyrra. Hann hóf aldrei störf því Kristján var þessa mánuði „að lesa sér til“ eins og grínast var með í ráðuneytinu því fáir urðu varir við hann þar.
Til þess að Lilju bíði ekki sömu örlög og fyrrnefndra þriggja menntamálaráðherra, þarf hún að sýna framtak og frumkvæði sem fyrst. Umbætur á fjölmiðlamarkaði er tækifæri sem hún ætti ekki að láta ganga sér úr greipum. Hún þarf þá að vinna hratt og markvisst og koma með tillögur sem skipta máli.
Því verður ekki trúað að Lilja Alfreðsdóttir ætli að verða fjórði verklausi menntamálaráðherrann í röð.
Rtá.