Mörgum vinstrimönnum rennur til rifja að sjá hvernig Katrín Jakobsdóttir lætur nota sig á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Hún er óhrein upp fyrir haus við að freista þess að bjarga hinum formönnunum frá vandræðamálum þeirra. Katrín virðist ætla að gera allt – bókstaflega allt – til að halda vinstri stjórn sinni saman.
Bersýnilega vill hún alls ekki missa þann lúxus sem fylgir því að vera forsætisráðherra, með fínan bíl og bílstjóra og þjóna á hverjum fingri, og fá að skreppa af og til í ferðir til Brussel og viðra sig þar upp við alvöruleiðtoga NATO og ESB, friðarsamtakanna á Vesturlöndum sem flokkur hennar og hún sjálf eru opinberlega á móti. Samt mætir hún til fundar við þá, brosandi fölsku brosi út að eyrum.
Vandi Katrínar er mikill. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar hefur verið á flótta síðustu vikurnar síðan hann og varaformaður flokksins, Lilja Alfreðsdóttir, urðu sér til skammar í djammpartíi á vettvangi Bændasamtakanna þar sem þau móðguðu fólk og vöktu hneykslan með siðlausri framkomu sinni.
Sigurður Ingi hefur beðist afsökunar með hangandi hendi en hneykslaður almenningur gerir lítið með það. Ráðherrar eru fyrirmyndir og geta ekki leyft sér að koma fram opinberlega eins og kjánar, reyna síðan að þagga mál niður, senda aðstoðarmenn sína fram á völlinn með ósannindi og freista þess að bíða storminn af sér. Það mun Sigurði Inga og Lilju ekki takast. En vesalings Katrín, sem hvergi kom nærri djammpartíinu, neyðist til að reyna að skjóta skildi fyrir ráðherra í ríkisstjórn sinni.
Á sama tíma fer þjóðfélagsumræðan á hliðina vegna klúðurs við sölu hlutabréfa í Íslandsbanka. Bjarna Benediktssyni er kennt um, en málið er formlega á forsvari fjármálaráðherra. Það er að margra mati ósanngjarnt að skella allri skuldinni á Bjarna. Öll ríkisstjórnin er ábyrg.
Málið var kynnt öllum ráðherrum á ítrekuðum fundum og fjallað var sérstaklega um bankasöluna í undirnefnd ríkisstjórnarinnar þar sem sæti eiga Bjarni, Katrín og Lilja Alfreðsdóttir sem þóttist hafa lagst gegn sölunni, eftir að allt var komið í bál og brand vegna hennar, án þess að neitt sé bókað um það í fundargerðum nefndarinnar eða ríkisstjórnarinnar.
Þetta er dæmigerð tækifærismennska Lilju og rýtingsstunga í bak Bjarna Benediktssonar. Bjarni er ekki skaplaus maður og hann tekur þessu ekki vel. Enn á ný klemmist vesalings Katrín Jakobsdóttir á milli. Hún reynir að verja Bjarna og þau leita í örvæntingu leiða til að finna sökudólga utan ríkisstjórnarinnar. Þá er brugðið á það ráð að kasta steinum í Bankasýslu ríkisins, kenna henni um klúður ríkisstjórnarinnar og boða að stofnunin verði lögð af. Alla vega að henni verði breytt, hið minnsta skipt um kennitölu.
Vegna þeirra vægast sagt óþægilegu verka, sem Katrín Jakobsdóttir verður að ganga í til að reyna að halda völdum og halda lífi í veiklaðri ríkisstjórn, verður vart vaxandi ólgu í flokki hennar, Vinstrihreyfingunni grænu framboði, sem sumum flokksmönnum þykir að sé nú orðið hvorki vinstri né grænt. VG standi nú orðið ekki fyrir Vinstri græn heldur Vinir Garðabæjar. Fylgi VG fer dvínandi samkvæmt skoðanakönnunum og einungis eitt prósent flokksmanna, sem spurðir voru í könnun, lýstu ánægju með framvindu bankasölumálsins.
Sagt er að nú kraumi í grasrót VG vegna þessara vandræðamála sem rakin eru til formanns Framsóknar annars vegar og formanns Sjálfstæðisflokksins hins vegar. Jóhann Hauksson, fyrrverandi blaðamaður, birti grein í Fréttablaðinu nýlega þar sem hann lýsti mikilli gremju vegna stöðu mála og einkum þess hve mjög Katrín reynist meðvirk í vandræðamálum sem hún á ekki beinlínis sök á.
Jóhann vitnar meðal annars í forseta ASÍ sem gekk úr flokki Katrínar þegar hún myndaði ríkisstjórn árið 2017 og bjargaði Sjálfstæðisflokknum um borð eftir vandræðamál sem gerðu honum erfitt fyrir. Forseti ASÍ talaði þá um að vinstra fólk fengi „að éta skít“ í boði Katrínar og Sjálfstæðisflokksins næstu árin. Það hefur komið á daginn.
Á meðan Katrín engist í þessum vonlausu aðstæðum, hafa aðrir forystumenn VG sig lítið í frammi. Sumir spá því að Svandís Svavarsdóttir bíði nú róleg í skjóli á meðan Katrín Jakobsdóttir er brennd á pólitísku báli innan Vinstri grænna. Að því loknu gæti Svandís Svavarsdóttir stigið fram og tekið við formennsku í VG – sem yrði þá fljótlega bæði vinstri og græn aftur. Grasrótin bíður þess vongóð.
- Ólafur Arnarson