Verður Hildur einnota leiðtogi eins og hinir?

Fátt bendir til annars en að Hildur Björnsdóttir, nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í vor, verði með flokk sinn í minnihluta eins og verið hefur hlutskipti flokksins að mestu allt frá árinu 1994 þegar R-listinn hrifsaði völdin af flokknum eftir langa og farsæla valdatíð.

Allt frá því að Davíð Oddsson yfirgaf borgarstjórastólinn árið 1991 hafa fjölmargir flokksmenn spreytt sig á að leiða lista flokksins án mikils árangurs. Örlög þeirra allra hafa verið þau að vera einnota leiðtogar. Eini maðurinn sem hefur náð því að vera kjörinn borgarstjóri í kjölfar kosninga er Vilhjkálmur Þ. Vilhjálmsson sem tók við sem borgarstjóri vorið 2006.

Vilhjálmur leiddi flokkinn þá til þess árangurs að fá 7 borgarfulltrúa af 15 og myndaði meirihluta með Framsókn sem hafði náð einum manni. Þetta er besti árangur flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur allt frá árinu 1994. Vilhjálmur gegndi starfi borgarstjóra í 16 mánuði þar til félagar hans í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins stungu hann í bakið og felldu meirihluta flokksins og Framsóknar. Aðförin að Vilhjálmi var undir forystu Hönnu Birnu og Gísla Marteins. Einn úr þeim hópi borgarfulltrúa er enn í framboði, Kjartan Magnússon.

Í nýrri stórri skoðanakönnun Fréttablaðsins mælist Sjálfstæðisflokkurinn einungis með 20,7 prósenta fylgi í borginni sem gæfi honum 5 borgarfulltrúa af 23. Engar líkur eru á að flokkurinn nái neinni viðspyrnu í aðdraganda kosninganna í maí og allt bendir til að fhann verði dæmdur til áframhaldandi minnihlutadvalar í fjögur ár. Nú undir forystu Hildar Björnsdóttur. Ætla má að í lok kjörtímabilsins verði hún látin víkja úr forystusætinu eins og tíðkast hefur. Eftirtaldir hafa gegnt stöðu oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni frá því Davíð vék úr sæti borgarstjóra:

  1. Markús Örn Antonsson tók við af Davíð árið 1991. Hann sagði af sér embætti 70 dögum fyrir kosningarnar 1994 þegar R-listinn birtist.
  2. Árni Sigfússon tók við af Markúsi Erni og hafði ekki ráðrúm til að stöðva sigurgöngu R-listans í kosningunum. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn völdin.
  3. Árni Sigfússon var leiðtogi minnihlutans kjörtímabilið 1994 til 1998 og fór fyrir flokknum í kosningunum 1998 og tapaði fyrir R-listanum.
  4. Birni Bjarnasyni var stillt upp sem oddvita flokksins fyrir kosningarnar 2002. Það var mikil sneypuför Björns. Fylgi flokksins dalaði og R-listinn náði sínum besta árangri.
  5. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiddi listann í kosningunum 2006 eftir að hafa sigrað Gísla Martein Baldursson í prófkjöri þar sem þeir tókust á um fyrsta sætið. Fylgi flokksins jókst frá sneypuför Björns Bjarnasonar, flokkurinn fékk 7 menn kjörna og myndaði meirihluta með Framsókn sem fékk einn mann kjörinn. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson varð borgarstjóri í 16 mánuði – eða þar til félagar hans í flokknum brugðust og felldu meirihlutann.
  6. Hanna Birna Kristjánsdóttir leiddi lista flokksins í kosningunum 2010. Enn hallaði undan fæti og flokksins beið hlutverk í minnihluta í borgarstjóratíð Jóns Gnarr.
  7. Halldór Halldórsson leiddi lista flokksins vorið 2014. Þá hlaut sjálfstæðisflokkurinn minnsta fylgi í sögunni í borgarstjórnarkosningum, einungis 25,5 prósent. Dagur B. Eggertsson tók við stöðu borgarstjóra. Halldór hvarf af vettvangi borgarmála í lok kjörtímabilsins. Enn einn einnota oddviti flokksins.
  8. Eyþór Arnalds tók við forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins í borginni vorið 2018 eftir að hafa sigrað í leiðtogaprófkjöri flokksins. Stillt var upp á listann með honum, einkum lítt þekktu fólki sem hefur ekki náð að festa sig í sessi að neinu ráði. Meðal þess var Hildur Björnsdóttir sem nú er tekin við þessu vanþakkláta hlutverki. Flokkurinn fékki 30,8 prósenta fylgi í kosningunum sem var það næstlakasta í sögunni. Eyþór túlkaði það samt sem „sigur“. Dagur hélt áfram sem borgarstjóri.
    Sjálfstæðisflokksins beið áfram hlutverk í stjórnarandstöðu og Eyþór ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa í borgarstjórn. Hann hverfur því af vettvangi sem enn einn einnota oddviti flokksins.
  9. Hildur Björnsdóttir tekur nú við sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn þegar nýjasta skoðanakönnunin mælir fylgi flokksins 20,7 prósent sem gæfi 5 borgarfulltrúa

Hún hefur nú sjö vikur til að mynda samstæðan hóp frambjóðenda úr þeim sem mest fylgi fengu í nýafstöðnu prófkjöri þar sem enginn hlaut bindandi kosningu. Í hópi efstu manna eru fulltrúar stríðandi fylkinga innan Sjálfstæðisflokksins í borginni og aðilar sem hafa lýst mjög skiptum skoðunum á helstu átakamálum í borginni.

Að margra mati er flokkurinn ekki stjórntækur vegna klofnings í Reykjavík. Erfitt er að sjá annað en að Hildur bætist í hóp einnota oddvita í síðasta lagi í lok kjörtímabilsins vorið 2026.

Að lokum má velta því fyrir sér hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn náði 60 prósent fylgi árið 1990 en rúmum 20 prósentum eins og staðan er núna.

Einhver kynni að svara því þannig að þá hafi flokkurinn haft sterkan leiðtoga í borginni, Davíð Oddsson. Það er rétt. Hann hafði líka með sér fyrnasterkan hóp borgarfulltrúa. Lítum á dæmi um það fólk sem var með honum á lista flokksins – og berum það saman við þá sem eiga að halda uppi merki Sjálfstæðisflokksins nú um stundir:

Magnús L. Sveinsson var þá formaður VR, stærsta launþegafélags Íslands. Páll Gíslason var yfirlæknir og skátahöfðingi, Júlíus Hafstein var formaður HSÍ, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var formaður Sambands sveitarfélaga, Katrín Fjeldsted var læknir og síðar alþingismaður, Árni Sigfússon hafði verið formaður SUS og Sveinn Andri Sveinsson var formaður knattspyrnufélagsins Fram.

Með öðrum orðum: Þarna var öflugt fólk sem hafði tengingar í stóra hópa eins og launþegahreyfingu, íþróttahreyfinguna, skátana og heilbrigðiskerfið svo eitthvað sé nefnt.

Nú er varla hægt að státa að neinum mikilvægum tengslum.

Fylgishrun Sjálfstæðisflokksins í borginni er engin tilviljun. Á því eru fullkomlega eðlilegar skýringar.

- Ólafur Arnarson