Margir eru nú nefndir til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ekki bara reykvísku stjórnmálamennirnir Eyþór Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Brynjar Níelsson og Sigríður Andersen. Tvö þau síðastnefndu eru nú atvinnulausir fyrrverandi þingmenn sem þrá pólitíska valdastöðu að nýju.
Nefndir hafa verið framkvæmdastjórar samtaka í atvinnulífinu sem starfa í glerhúsinu Borgartúni 35. Halldór Benjamín Þorbergsson hjá SA er sagður bíða eftir rétta tækifærinu hjá Sjálfstæðisflokknum, rétt eins og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sem hýst er á sama stað.
Undanfarið hefur vakið athygli hve mjög Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur vegið að meirihluta borgarstjórnar og ekki síst borgarstjóra sjálfum. Nýlega lét hann hafa eftir sér í Morgunblaðinu að vaxandi verðbólga á Íslandi væri ráðhúsinu í Reykjavík að kenna en ekki ríkisstjórninni eða hækkandi verðlagi um allan heim! Þá hefur hann ítrekað slegið fram röngum fullyrðingum varðandi lóðaframboð borgarinnar. Menn hafa velt fyrir sér hvers vegna Sigurður velur að kasta steinum úr þessu glerhúsi og ýmsir getið sér til að hann stefni á prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Sigurður hefur fram að þessu verið framsóknarmaður og Miðflokksmaður, þykir handgenginn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þannig að hann þyrfti að stíga stórt skref fyrst.
Fjárfestar og athafnamenn hafa sumir hverjir sýnt þessari leit mikinn áhuga. Einn þeirra stakk upp á Elliða Vignissyni, sem var hrakinn úr embætti bæjarstjóra Vestmannaeyja í síðustu kosningum, og fékk stöðu í Þorlákshöfn. Sú hugmynd var hlegin hratt út af borðinu.
Flestir telja þó að sjálfstæðismenn muni á endanum setja Eyþór Arnalds áfram í oddvitasæti og reyni að spila út spili sem reyndist Framsókn svo vel í nýliðnum þingkosningum: ER EKKI BARA BEST AÐ VELJA EYÞÓR?
- Ólafur Arnarson