Hægri kratar eru mjög óhressir með þróun mála innan Samfylkingar. Það þarf varla að koma nokkrum á óvart. Staða flokksins er afleit og litlar batahorfur. Átök milli hægri og vinstri innan flokksins eru að stórskaða hann. Í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur fór Samfylkingin hraðferð til vinstri og er nú að bíta úr nálinni með það.
Þegar kosið var milli Árna Páls Árnasonar og Guðbjarts heitins Hannessonar í byrjun árs 2013, fór fram uppgjör milli hægri- og vinstriafla í Samfylkingunni. Guðbjartur var frambjóðandi Jóhönnu Sigurðardóttur og vinstri hlutans en Árni Páll stóð fyrir frjálslyndari arm flokksins. Árni Páll sigraði með yfirburðum og tók við löskuðum flokknum úr hendi Jóhönnu Sigurðardóttur sem skilaði af sér slæmu búi.
Í stað þess að flokksmenn fylktu sér á bak við nýja forystu, hélt baráttan áfram. Þeir sem töpuðu gátu ekki unnt Árna Páli að leiða flokkinn. Þeir unnu að því að grafa undan honum og gerðu honum erfitt fyrir. Afleiðingarnar hafa ekki látið standa á sér. Fylgi flokksins er komið niður í eins stafs prósentutölu og því hefur ekki verið viðbjargandi síðan Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður og útsendari Jóhönnuarmsins, bauð sig fram á síðustu stundu á móti Árna Páli á síðasta landsþingi og náði að kljúfa flokkinn í tvennt. Árni Páll hélt velli á einu atkvæði. Eftir það hefur hann átt í vök að verjast.
Framundan eru kosningar um forystu Samfylkingar. Árni Páll Árnason hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Þeir sem eru í framboði eru allir veikir kostir. Helgi Hjörvar mun leiða flokkinn til vinstri og trúlega Oddný Harðardóttir einnig en slagurinn stendur milli þeirra. Magnús Orri Schram og ungi bæjarfulltrúinn af Seltjarnarnesi eiga enga möguleika.
Gamlir og nýjir kratar eru vægast sagt ósáttir með stöðu mála og eru sagðir hugsa ráð sitt. Nafn gamla Alþýðuflokksins er enn til og 100 ára afmæli flokksins er framundan. Nú velta menn því fyrir sér hvort Alþýðuflokkurinn kemur ekki fram á sjónarsviðið að nýju á 100 ára afmælinu og heldur áfram þar sem frá var horfið þegar sameiningin mikla fór fram og úr varð bræðingurinn Samfylking sem margir voru aldrei sáttir við.
Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, þingmaður og ráðherra, er sagður “eiga” nafn Alþýðuflokksins og geta nýtt það til framboðs ef hann vill. Guðmundur er eðalkrati úr Hafnarfirði. Hann hætti ungur á þingi og gerðist sendiherra. Er nú kominn heim og dvelur við störf á Rauðarárstíg úthvíldur eftir rúman áratug í utanríkisþjónustunni. Guðmundur er mikill pólítíkus, keppnismaður og hugsjónakrati. Því skyldi hann ekki stíga að nýju inn á vígvöll stjórnmálanna með Alþýðuflokksnafnið undir hendinni?
Menn velta því fyrir sér hvort hann, Árni Páll og ýmsir aðrir hægrikratar gætu ekki náð góðum árangri við núverandi aðstæður. Kratar voru yfirleitt með 10% til 15% og 6 til 9 þingmenn sem oft réðu úrslitum þegar kom að myndun ríkisstjórna. Þannig héldu þeir út í 13 ár með Sjálfstæðisflokknum í Viðreisnarstjórninni frá árinu 1958 til 1971 en hún er talin besta og farsælasta ríkisstjórn lýðveldistímans.
Kristján Möller hefur nýlega lýst því yfir að hann ætli ekki að sækjast eftir sæti á lista Samfylkingar fyrir norðan. Hann er hægrikrati frá Siglufirði. Ekki þyrfti að koma á óvart að hann gæti hugsað sér endurreisn Alþýðuflokksins og væri vís með að taka þátt í þeirri athyglisverðu endurfæðingu.
Verði Alþýðuflokkurinn ekki endurreistur má gera ráð fyrir að hægri kratar sjái sér þá þann kost vænstan að ganga til liðs við Viðreisn sem er borgaralegur miðju-og hægriflokkur.