Það er ekkert annað í boði en að sniðganga Eurovision. Yfirstjórn Ríkisútvarpsins hefur, með því að vilja ekki axla siðferðilega ábyrgð og standa með þjáðu og kúguðu fólki, fórnarlömbum skelfilegs glæps, gert okkur að vissu leiti samsek í hneykslinu sem keppnin er í ár en við eigum þó ennþá svolítið val; val um að neita sem persónur að taka þátt í algjörlega sjúklegri hegðun; að halda partý í næsta húsi við vettvang óbærilegs ofbeldis.
Það er á endanum það minnsta sem við getum gert, bókstaflega það minnsta og ef við erum ekki fær um það, hvað erum við þá fær um að gera, ég bara spyr?
Ef við viljum frið, þarf að afnýlenduvæða Palestínu, enda hernámið og aðskilnaðarstefnuna. Gaza er gettó. Ísrael er aðskilnaðarríki. Það að taka þátt í Eurovision, og að horfa á keppnina, er að samþykkja meðferð Ísrael á Palestínumönnum – í Gaza og á hernumdum Vesturbakkanum.
Í gær sagði keppandi Montenegro um ástandið í Gaza:
„Við vitum ekki hvað er í gangi, við erum hérna til að syngja og skapa tónlist.“
Það að hunsa hernám, kúgun og ofbeldi þýðir ekki að ábyrgðin og afleiðingarnar hverfi. Það koma svo sannarlega tímar þar sem fólk þarf að koma saman, skapa tónlist og brúa bil, en það koma líka tímar þar sem nauðsynlegt er að taka afstöðu og standa með réttlæti. Sá tími er núna.“