\"Verðtryggingin stendur í kokinu á Sjálfstæðismönnum” sagði Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi frá Akranesi þegar hann ræddi fasteignamálin í þættinum Afsal sem sýndur var á Hringbraut á fimmtudagskvöld.
Vilhjálmur tók dæmi um 25 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán, sem hækkar í 56 milljónir króna ef verðbólga helst í 2%. Ef verðbólgan er hins vegar 5,6% eins og hún hefur verið að meðaltali frá því að mælingar hófust, enda lántakendur með að greiða um 169 milljónir króna. Vilhjálmur sagði Sjálfstæðisflokkinn og lífeyrissjóðina vera hindrunin og nú væri kominn tími til að almenningur tæki sig saman og segði að nú væri nóg komið. Fjármagnsöflin hefðu ráðið of lengi og í raun væru bankarnir að bjóða \"eitraðan kokkteil,” með þeim lánum og körum sem almenningi býðst í dag.
Vilhjálmur sagði að starfshópur um afnám verðtryggingarinnar hefði lokið sínum störfum fyrir tæpu ári síðan. Starfshópurinn hefði unnið sínar tillögur á sama tíma og starfshópur um skuldaleiðréttingu heimilanna hefði verið að störfum. Munurinn væri hins vegar sá að skuldaleiðréttingin hefði farið í framkvæmd samkvæmt áætlun, á meðan ekkert hefði verið aðhafst í verðtryggingarmálum.
Framsóknarflokkurinn hefði lofað afnámi verðtryggingar fyrir síðustu kosningar og almenningur hefði oft sýnt það í kosningum, að mönnum er refsað ef þeir standa ekki við stóru loforðin. Því væri ljóst að ef Framsókn aðhefðist ekkert nú, væri útlitið ekki bjart fyrir flokkinn í næstu kosningum.
Vilhjálmur sagðist þeirrar skoðunar að ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki tilbúin í aðgerðir, ætti Framsóknarflokkurinn að leggja sjálfur fram frumvarp og í framhaldinu kæmi bara í ljós, hvar þingið stæði í málinu.
Afsal má sjá hér á vef stöðvarinnar en þátturinn er endursýndur í kvöld klukkan 23:00.