Verða össur og illugi gerðir að sendiherrum?

Mikið framboð er nú af fyrrverandi stjórnmálamönnum sem leita sér skjóls eftir að hafa fallið af þingi. Sumir þeirra hafa víða knúið dyra í atvinnuleit en án árangurs. Ljóst er að framboð fallina ráðherra er mun meira en eftirspurn eftir þeim.
 
Um árabil hefur verið í gildi óformlegt samkomulag milli fjórflokksins um að fyrrverandi formenn þessara flokka gætu fengið sendiherraembætti ef þeir vildu þegar þér létu af þingmennsku. Talið er að samkomulagið sé enn í fullu gildi. Fyrrverandi formenn hafa ekki þurft annað en láta utanríkisráðherra á hverjum tíma vita um vilja sinn til að fá sendiherraembætti. Aðrir stjórnmálamenn genga ekki að neinu vísu og þurfa yfirleitt að hafa mikið fyrir því að fá framgang. Dæmi um fyrrverandi formenn flokka sem hafa fengið sendiherraembætti eru Svavar Gestsson, Kjartan Jóhannsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Geir Haarde, Sighvatur Björgvinsson og Guðmundur Árni Stefánsson.
 
Í ljósi þessa verður það auðsótt mál fyrir Össur Skarphéðinsson að sækja sendiherraembætti á næstunni, ef hann kýs. Ætla má að það gæti hentað honum vel, sérstaklega ef áhugavert sendiráð stæði til boða. Össur myndi sóma sér vel í Brussel, London, Berlín eða París – eins mikill Evrópumaður og hann er.
 
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í vandræðum með að útvega Illuga Gunnarssyni starf eða embætti eftir að hann hætti á þingi og í ríkisstjórn vegna Orka Energy málsins sem varpaði dökkum skugga á feril hans. Reynt hefur verið að útvega honum starf í atvinnulífinu eða hjá samtökum atvinnulífs  Flokksforystan telur sig þurfa að leggja honum lið, andstætt því sem viðrist vera vegna Hönnu Birnu og Ragnheiðar Elínar sem einnig hrökkluðust úr ríkisstjórn og forystu flokksins.
 
Nú er rætt um það að Illugi fái starf í utanríkisþjónustunni og það verði tilkynnt um leið og einhver fyrrverandi ráðherra úr öðrum flokki fengi stöðu. Þá vekur það ekki eins mikla neikvæða athygli. Verði Össur skipaður, gæti það hentað að láta Illuga fljóta með. Vitað er að sendiherraembætti eru að losna í vor og þá gæti verið rétti tíminn.
 
Embættisveitingar af þessu tagi eru nú í höndum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Hann og Illugi hafa verið fjandvinir innan Sjálfstæðiflokksins allt frá því þeir voru virkir í starfi ungra sjálfstæðismanna. Þeir hafa ekki tilheyrt sömu fylkingunum innan flokksins.
 
Þeir sem þekkja til átakasögu þeirra sjá fyrir sér glottið á Guðlaugi Þór ef það kemur í hans hlut að ráða Illuga Gunnarsson til starfa í utanríkisþjónustunni að kröfu flokksforystunnar.