Verða einnig straumhvörf í stjórnmálum á Íslandi?

Tímamótaúrslit hafa orðið í kosningum í Evrópu að undanförnu sem stafa af mikilli þreytu á fráfarandi valdhöfum. Kjósendur hafa látið af flokkshollustu, heimta breytingar og kjósa eftir sannfæringu sinni. Straumurinn liggur til sigurvegaranna og þeir sem sitja eftir með sárt ennið njóta ekki mikillar samúðar.

Skoðanakannanir í Frakklandi höfðu almennt gert ráð fyrir stórsigri öfgaflokks Marie Le Pen og það gekk eftir um síðustu helgi. Flokkur hennar hlaut 34 prósent atkvæða og reyndist óumdeildur sigurvegari. Úrslitin í Frakklandi gætu valdið langvarandi straumhvörfum í frönskum stjórnmálum. Sömu sögu er að segja um Bretland. Úrslit kosninganna þar á fimmtudaginn reyndust vera algerlega í samræmi við skoðanakannanir og Íhaldsflokkurinn galt afhroð og missir völdin eftir 14 ára valdaferil. Verkamannaflokkurinn vann stórsigur eins og spáð hafði verið og er þegar tekinn við völdum í Bretlandi eftir langan og erfiðan tíma í stjórnarandstöðu.

Í báðum þessum tilvikum hafa spár og skoðanakannanir staðið til þess að svona færi. Svo virðist sem kjósendur fylki sér á bak við verðandi sigurvegara. Tryggð kjósenda fer síminnkandi í öllum löndum. Fólkið velur sér forystu eftir hentugleikum og skilur gamla flokka sína hiklaust eftir í sárum. Þetta sýndi sig í nýafstöðnum kosningum í Frakklandi og Bretlandi.

Mun hið sama gerast á Íslandi í næstu alþingiskosningum sem verða eigi síðar en á næsta ári? Samfylkingin hefur sópað að sér fylgi og mælst stöðug í skoðanakönnunum síðustu 18 mánuðina með á bilinu 25 til 30 prósent fylgi, langstærstur flokka. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að tapa forystuhlutverki sínu og mældist í síðustu skoðanakönnunum með 15 til 18 prósent stuðning. Vitanlega gætir meðal kjósenda langvarandi þreytu vegna langrar valdasetu flokksins sem hefur átt sæti í ríkisstjórn samfleytt frá vorinu 2013, í meira en ellefu ár. Nánast sama gildir um Framsóknarflokkinn sem mælist með lágmarksfylgi, en sjö ára valdaseta virðist hafa dugað Vinstri grænum til að nær tortíma sjálfum sér í faðmi íhaldsflokkanna tveggja.

Straumurinn liggur til Samfylkingarinnar og nú er óhætt að spyrja hvort hið sama gerist hér og í fyrrnefndum ríkjum Evrópu þar sem þróunin hefur verið stöðug, skýr og afgerandi í þá átt að fylgið sópist til þess flokks sem mælist sterkastur í skoðanakönnunum í langan tíma og ber svo sigur úr býtum þegar kemur að sjálfum kosningunum. Fjölmiðlar hafa skýrt frá því að formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, hafi verið á vettvangi í London ásamt fylgdarliði til að samfagna með systurflokknum í Bretlandi og læra af flokksfélögum sínum þar í landi hvernig á að reka svo árangursríka kosningabaráttu. Hún virðist því ætla að koma vel undirbúin og þungvopnuð til næstu kosninga. Margt bendir til þess að þróunin á Íslandi í næstu kosningum geti orðið með svipuðum hætti og gerðist í Frakklandi og Englandi. Kjósendur gætu fylkt sér enn frekar um væntanlega sigurvegara. Verði þróunin þannig er ekkert sem stöðvar Samfylkinguna við 30 prósentin. Fylgi flokksins gæti allt eins endað í 35 prósentum sem ætti að gefa 22 til 24 þingsæti.

Á það er gjarnan bent að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eiga á að skipa gömlum og öflugum kosningamaskínum sem oft hafa virkað vel og komið á óvart. Þær verða örugglega ræstar þegar nær dregur. En mun það virka ef stemmningin í þjóðfélaginu og straumurinn meðal kjósenda liggur allur í aðrar áttir, einkum til Samfylkingarinnar sem er smám saman að koma sér í þá stöðu að vera forystuflokkur íslenskra stjórnmála nú um stundir. Svo virðist sem kjósendur sýni flokkshollustu æ minni áhuga. Gott dæmi um það er niðurstaða nýafstaðinna forsetakosninga á Íslandi þar sem öllum mátti vera ljóst að stjórnarflokkarnir þrír vildu að Katrín Jakobsdóttir næði kjöri en kjósendur höfnuðu þeirri hugmynd á eftirminnilegan hátt.

Af samtölum við dygga stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins að dæma virðist von þeirra um bættan hag flokksins dofna jafnt og þétt. Algengt er að menn segi að ekki þurfi að vænta aukins fylgis hjá flokknum fyrr en algjörlega hefur verið skipt um forystu hans. Þeir telja að Bjarni Benediktsson verði að láta af formennsku til þess að flokkurinn geti spyrnt sér upp á við. Hins vegar virðist flestum vera það ljóst að Bjarni ætlar sér ekki að hætta, hvað sem ömurlegum skoðanakönnunum líður mánuð eftir mánuð. Hann ætlar að gera eins og Jóhanna Sigurðardóttir gerði á sínum tíma, stritast við að sitja á stóli forsætisráðherra út kjörtímabilið þó svo að afleiðingarnar geti orðið skelfilegar eins og varð hjá Jóhönnu og samstarfsfólki hennar vorið 2013.

Þessir dyggu stuðningsmenn flokksins eru gjarnan spurðir hver eigi að taka við ef Bjarni léti af formennsku. Flestum sýnist að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi ekki lengur viljann eða kraftinn til að sækjast eftir formennsku. Hann hefur verið frekar daufur á þessu kjörtímabili og lítið farið fyrir honum á ráðherrastóli. Varaformaðurinn, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur ekki aukið möguleika sína að undanförnu. Bent er á mistök sem hún hefur gert, t.d. þegar hún lokaði sendiráði Íslands í Moskvu, en það hafa aðrar þjóðir Evrópu ekki gert. Með því beindi hún reiði Rússa að smáþjóðinni Íslandi sem var hreint ekki klókt. Þetta þótti bera vott um dómgreindarleysi. Fleiri mistök hafa verið nefnd varðandi stjórnsýslu hennar.

Er þá enginn til að taka við flokknum ef Bjarni lætur af forystu? Að sönnu er ekki um auðugan garð að gresja. Einhverjir ganga svo langt að nefna Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem mögulegan formann Sjálfstæðisflokksins, en talsvert hefur mætt á henni í embætti dómsmálaráðherra og þar af leiðandi hefur hún verið talsvert í sviðsljósi fjölmiðla.

Verði það þrautalendingin munu margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins brosa breitt.

- Ólafur Arnarson.