Eitur meira eitur, ör vil ég dansa og heitur.
Þannig orti Skagfirðingur fyrir einni öld, Sveinn Jónsson, kallaður framtíðarskáld.
Hann var forspár hann Sveinn. Vissi að lífið var óréttlátt og yrði það áfram. Ein leiðin til að komast í gegnum það væri kannski að hella í sig íslensku brennivíni um helgar, dansa kexruglaður fram á vímaða nótt, syngja skagfirskar vísur, hverfa svo inn í myrkur drykkjudauðans, fá langþráðan frið. Eins gott að dansa og hvílast svo því alla næstu daga yrði það meginmarkmiðið eins og alltaf fyrr að ganga kúgaður og píndur til leiks í íslensku samfélagi, lúta spilltu höfðingjavaldi. Þannig hefur Íslandssagan verið í hnotskurn ef undan eru skildir nokkrir áratugir síðan á söguöld.
Þó kemur fyrir að alþýðan neitar að láta dópa sig lengur og rís upp. Þannig var það í síðustu viku. Flestum er enda ljóst að deyfingar, hvorki andlegar né líkamlegar, eru framtíðarlausnir heldur framlenging á vanda, leiðir af sér stigmögnun vanda. Þótt það sé sárt og erfitt að verða vitni að íslensku ógeði í beinni útsendingu án nokkurrar deyfingar verður að gera fleira en gott þykir og það veit fólkið sem heimsótti Austurvöll til að mótmæla. Ekkert annað en róttæk hugarfarsbreyting hjá heilli þjóð, róttæk hugarfarsbreyting innan stjórnsýslunnar er svarið við helspilltu Íslandi. Gildir það eitt að opna nú augun. Galopna augun þótt ekki sé það frýnilegt sem fyrir þau ber.
Vér blaðamenn virðumst hafa skipt okkur í tvo flokka á meðan á þessu stendur. Annar hópurinn er hlýðinn og þægur. Fulltrúar þess hóps taka undirgefnir viðtöl við menn með ný og gömul völd, styggja engan með spurningum sínum, eru prúðir umfram annað, stimpla inn og út ruglið. Það kallast kranablaðamennska. Eitur meira eitur, ör vil ég dansa og heitur.
Í Mannorðsmorðingjum?, bók um íslenska blaðamennsku, er haldið fram að meðvirkni íslenskra blaðamanna og undirgefni gagnvart ráðandi öflum eigi þátt í ógæfu landsmanna og skorti á umbótum. Um þetta er einnig fjallað í fjölmiðlahluta Rannsóknarskýrslu Alþingis. \"Óumdeild\" blaðamennska er stundum versta og hættulegasta blaðamennskan. Að fjölmiðlar framlengi athugasemdalaust vilja ráðandi efnahags- og stjórnmálavalds er lýðræðinu varasamara en flest annað. Fjölmiðlar eiga að vera ein af burðarstoðum lýðræðis, sjálfstæð stoð, þeir eru kallaðir Fjórða valdið. Það er sennilega rétt sem Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, heldur fram að margir íslenskir fjölmiðlar og margir íslenskir fjölmiðlamenn hafa ekki staðist álagsprófið síðustu daga. Eitur meira eitur, ör vil ég dansa og heitur. Á móti kemur að þeir blaðamenn sem hafa staðið í lappirnar hafa verið stimplaðir og fengið miklar skammir. Sjálfstæður blaðamaður má þola að vera kallaður pólitíkus en ekki blaðamaður ef hann leyfir réttlætiskennd að ráða för. Þvílíkt rugl!
Atli Þór Fanndal er í hópi hinna \"brjáluðu blaðamanna\" eins og einn þingmaður Framsóknarflokksins kallaði sjálfstæða blaðamenn í síðustu viku á facebook en strokaði aftur út, vissi sennilega betur. Atli Þór býr í Skotlandi, leggur þar stund á meistaranám í blaðamennsku. Hann var í hressandi viðtali við Harmageddon í gær. Þar sagði Atli að í hinum siðmenntaða lýðræðisheimi sé það þannig að þegar traustið er farið eigi fólk að víkja, punktur og basta. En þeir sem skipi nú ríkisstjórn Íslands standi með siðlausum gjörningi. Almenningur eigi rétt á að geta treyst eigin kjörnum fulltrúum. Íslendingar eigi rétt á að því þegar okkur er sem þjóð misboðið að þingmenn sýni gott siðferði og víki. Málið sé ekki flóknara. Punktur og basta.
Rótin að vandanum segir Atli Þór er sú trú valdamikla hægrisins hér á landi að hinir ríku og ráðandi eigi alltaf að ríkja, hverju sem vindur fram. Blaðamaðurinn tekur fram að ekkert sé að því að vera til hægri og tek ég heilshugar undir það, enda hallast ég sjálfur bæði til hægri og vinstri. Íslenska hægrið er aftur á móti einhver úrkynjuð pólitík siðleysingja þar sem aumingjar fara með völd, segir Atli Þór Fanndal. Vakir helst fyrir þeim að úthluta bitlingum til að grafa undan íslensku samfélagi á sama tíma og þeir haga orðum og athöfnum þannig fram í rauðan dauðann að þeir haldi alltaf völdum. Ef það má ekki kalla fólk aumingja og siðleysingja núna þá má aldrei nefna hlutina upphátt réttum nöfnum, sagði Atli Þór í viðtalinu á Harmageddon. En hér er það lenska að kæfa gagnrýni þegar gripið er til stórra orða með því að halda fram að svo stór orð séu ekki svaraverð, segir Atli Þór. Eitur meira eitur...
Mér finnst rétt að lyfta rödd blaðamannsins Atla Þórs þótt sannarlega hafi hann notað stór orð. Þegar allt er undir er vandséð að hægt sé að komast í gegnum umbótaferlið nema með stórum orðum og hugumstórum verkum. Vér brjálaðir blaðamenn höfum sumir hverjir fengið hugrekki til að segja hug okkar. Það mun skapa læti og atlögur að mannorðsmorðum á okkur sjálfum.
En fyrir lýðræðið og samfélagið er það örugglega hið besta mál!
Kannski hyllir undir síðustu skref hinna deyfðu dansara, kannski er komið að því að eitrið verði sogið burt úr íslenskri stjórnsýslu.
Þá yrði þjóðin kannski um síðir edrú...
Björn Þorláksson