Sjálfstæðisflokkurinn skuldar 450 milljónir króna samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir á vef Ríkisendurskoðunar. Þar kemur fram að skuldirnar voru um 430 m. kr. um síðustu áramót. Þær hafa aukist síðan
vegna nýafstaðinna kosninga.
Hvernig getur flokkurinn greitt svo miklar skuldir? Því er fljótsvarað. Hann getur það ekki.
Tekjur frá stuðningsmönnum, fyrirtækjum og ríkinu hrökkva varla eða ekki fyrir rekstrarkostnaði.
Fjárhagsstaða Sjálfstæðisflokksins hvílir á láni frá Landsbankanum upp á 400 milljónir króna, láni sem er ekki borgað af, er ekki verðtryggt og ber einungis 5% nafnvexti.
Slík lánskjör eru óþekkt meðal viðskiptavina bankanna. Að ríkisbanki haldi gangandi láni af þessu tagi er rannsóknarefni út af fyrir sig. Almenningur sem er eigandi bankans á heimtingu á að fá skýringu á þessu háttarlagi.
Fjármálasukk hefur viðgengist hjá gömlu flokkunum í gegnum tíðina. Það er einnig slæmt hjá Framsókn sem skuldar yfir 200 milljónir. Sjálfstæðisflokkurinn safnaði miklum skuldahala í formannstíð Davíðs Oddssonar og hefur svo sokkið dýpra og dýpra í skuldafenið.
Full ástæða er til að krefja Landsbankann um skýringar á þessari lánafyrirgreiðslu og ekki síst lánskjörum, 5%, sem eru úr öllum takti við það sem jafnvel bestu og skilvísustu viðskiptavinum býðst gegn öruggum veðum.
Á árum áður þekktist þannig sukk hjá ríkisbönkunum að láta lán til gömlu flokkanna liggja óhreyfð. Talað var um að \"djúpfrysta\" í ríkisbönkunum sukklán stjórnmálaflokka, valinna stjórnmálamanna og sumra þjóðþekktra ritstjóra sem voru gjarnir á að gagnrýna aðra fyrir óábyrga háttsemi.
Náttfari hélt að þetta væri liðin tíð nú á tímum gagnsæis og heiðarleika! En svo virðist ekki vera.
Á sama tíma er hermt að nýjir flokkar séu skuldlausir og ábyrgir í fjármálaumsvifum sínum. Það mun eiga við um Bjarta framtíð, Viðreisn og Pírata.