Eigandi samfélagsmiðilsins Twitter og milljarðamæringurinn Elon Musk sagðist seint í gærkvöldi hafa ákveðið að hringja í Harald Þorleifsson og eiga við hann spjall auglitis til auglitis í stað þess að ræða málin á Twitter.
Fréttablaðið greindi frá þessu upp úr miðnætti.
Elon greindi sjálfur frá þessu á Twitter og sagði hann þar að hann hafi ákveðið að hringja myndsímtal í Harald. „Til þess að átta mig á því hvað er rétt miðað við það sem mér var sagt,“ skrifaði Elon og bætti því við að þetta væri löng saga.
Ummælin lét hann falla við þráð þar sem hann hafði áður sagt að raunveruleikinn væri sá að Haraldur hefði í raun ekki unnið neina alvöru vinnu og nýtt sér fötlun sína sem afsökun, og sagst ekki geta skrifað á lyklaborð.
Myndatökumaðurinn Daniel Noughton svaraði Musk í gær og sagði honum að þetta stangist á við það sem hann þekki af Haraldi. Sagðist Elon hafa ákveðið vegna þessara ummæla að hringja í Harald og heyra í honum sjálfur.
„Ég vil biðja Halla afsökunar fyrir misskilning mín á þessum aðstæðum. Hann var byggður á hlutum sem mér var sagt sem voru ósannir, eða í sumum atvikum sannir en ekki merkingarþrungnir,“ sagði Musk.
Þá bætti hann því að síðustu við að Haraldur væri nú að íhuga að halda áfram hjá Twitter. Sjálfur hefur Haraldur ekki tíst beint um málið, utan þess að í tísti sem hann birti í gærkvöldi sló hann á létta strengi, og sagði nóg komið af tali um sig og spyr hvað væri nú að frétta af okkur hinum.