Vendingar í máli Haraldar: Elon Musk segist hafa sett sig í samband við hann

Eig­andi sam­fé­lags­miðilsins Twitter og milljarða­mæringurinn Elon Musk sagðist seint í gærkvöldi hafa á­kveðið að hringja í Harald Þor­leifs­son og eiga við hann spjall auglitis til auglitis í stað þess að ræða málin á Twitter.

Fréttablaðið greindi frá þessu upp úr miðnætti.

Elon greindi sjálfur frá þessu á Twitter og sagði hann þar að hann hafi á­kveðið að hringja mynd­sím­tal í Harald. „Til þess að átta mig á því hvað er rétt miðað við það sem mér var sagt,“ skrifaði Elon og bætti því við að þetta væri löng saga.

Um­mælin lét hann falla við þráð þar sem hann hafði áður sagt að raun­veru­leikinn væri sá að Haraldur hefði í raun ekki unnið neina al­vöru vinnu og nýtt sér fötlun sína sem af­sökun, og sagst ekki geta skrifað á lykla­borð.

Mynda­töku­maðurinn Daniel Noughton svaraði Musk í gær og sagði honum að þetta stangist á við það sem hann þekki af Haraldi. Sagðist Elon hafa á­kveðið vegna þessara um­mæla að hringja í Harald og heyra í honum sjálfur.

„Ég vil biðja Halla af­sökunar fyrir mis­skilning mín á þessum að­stæðum. Hann var byggður á hlutum sem mér var sagt sem voru ó­sannir, eða í sumum at­vikum sannir en ekki merkingar­þrungnir,“ sagði Musk.

Þá bætti hann því að síðustu við að Haraldur væri nú að í­huga að halda á­fram hjá Twitter. Sjálfur hefur Haraldur ekki tíst beint um málið, utan þess að í tísti sem hann birti í gærkvöldi sló hann á létta strengi, og sagði nóg komið af tali um sig og spyr hvað væri nú að frétta af okkur hinum.