Ekkert lát hefur verið á hjólastuldi í borgum og bæjum landsins á síðustu árum og virðast æði margir landsmenn þekkja þá tilfinningu að vita af reiðhjólinu sínu í höndum óprúttinna manna sem hafa jafnvel haft nokkuð fyrir því að stela hjólhestinum. "Ekki kaupa nýtt reiðhjól án þess að alvöru lás fylgi með," segir Mogens Markússon hjólasérfræðingur heilsuþáttarins Lífsstíls á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Hann segir það alltof algengt að fólk festi kaup á góðu hjóli fyrir á annað hundrað þúsund krónur en spari svo eins og það geti við kaup á lásnum. Nú sé hægt að að kaupa níðsterka stállása fyrir um sjö þúsund krónur sem engin leið sé að klippa í sundur. "Þetta eru auðvitað smáaurar miðað við verð venjulegra hjóla," segir Mogens og brýnir fólk að gæta að þessum öryggisþætti.