Valgerður og eiginmaður hennar Jakob H. Magnússon eru eigendur Hornsins og fögnuðu nýverið 40 ára afmæli staðarins. Í tilefni þessa heimsótti Sjöfn, Valgerði, á veitingahúsið Hornið og fékk innsýn í tilurð og sögu staðarins og galdurinn bak við það að reka veitingahús á sama stað í fjörutíu ár.
Hornið hefur verið til húsa frá upphafi á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis í hjarta miðborgarinnar sem áður var gamalt verslunarhúsnæði sem var kallað lengi Ellingssenhús eftir verslun í vesturendanum. Húsið hefur mikið gildi sögu sinnar vegna. Hornið er með ítölskum blæ og var fyrsta veitingahúsið í þessum stíl á Íslandi.