Veit ekkert betra en að vera mamma

Sjöfn Þórðardóttir fær að venju til sín góða gesti í þáttinn Fasteignir og heimili í kvöld.

Barnvænt heimili í forgrunni – allt fyrir börnin

Sjöfn heimsækir Sigrún Ástu Jörgensen stíllista og móður í Bólstaðarhlíðina. Þessa dagana nýtur Sigrún Ásta sín í móðurhlutverkinu og það kemst nánast ekkert annað að. Hún er með tvo unga eineggja tvíburasyni sem eiga hug hennar allan og heimilið er þeirra. Hún veit ekkert betra en að vera mamma. Hvert sem litið er má sjá að ungabörn eru á heimilinu og þannig á það líka að vera. Sigrún Ásta fer yfir þá hluti sem þurfa að vera til staðar þegar von er á nýjum fjölskyldumeðlimi, ungabarni.

Stórfengleg og frumleg hönnun á Broddgeltinum

\"\"

Hedgehog eða Broddgölturinn er búinn að vera í hönnun í rúm tvö ár. Hann er stórfenglegur forsmíðaður bústaður sem hægt er að setja niður næstum hver sem er. Broddgölturinn er hannaður af Döðlum Studio sem er þekktast fyrir sterka fagurfræðilega og frumlega hönnun en fyrirtækið hannaði meðal annars Miami Bar og Oddsson Hotel.  Sjöfn heimsækir Daníel Frey Atlason einn af eigendum fyrirtækisins Studíó Döðlur og spjallar við hann um tilurð og hönnun þessa glæsilega sumarbústaðar en Daníel Freyr segir að þeir hafi gengið með þessa hugmynd í maganum í rúmlega tíu ár.

Hollt og gott fyrir heimilin

\"\"

Krónan er sífellt að leita leiða til að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og vera öðrum hvatning til eftirbreytni. Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir markaðsstjóri Krónunnar er gestur Sjafnar í kvöld og ætlar að fara frekar yfir það sem gert hefur verið og einnig með það í huga að aðstoða fjölskyldur, heimilin, að gera betur í lýðheilsu og umhverfismálum.

Réttur allra tryggður

\"\"

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins verður gestur Sjafnar og fer meðal annars yfir mikilvægi þess að vera með eignaskiptayfirlýsingu í fjöleignarhúsum.  Sigurður hefur þurft að leysa úr ýmsum flóknum málum sem geta komið upp í sambýli. Húseigendafélagið á sér langa tilvist og sögu og býður uppá ýmsa þjónustu og ráðgjöf sem skiptir sköpum fyrir fjöleignarhús og sambýli.

Þátturinn Fasteignir og heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld kl. 20:30 á Hringbraut - og jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.