Veikur listi Framsóknar í Reykjavík – stóra útspilið klikkaði

Einar Þorsteinsson, fyrrum fréttamaður hjá ríkissjónvarpinu, leiðir lista Framsóknar í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Í öðrum efstu sætum listans er frekar lítið þekkt fólk. Framsóknarmenn höfðu risastórar hugmyndir um sterkan lista og mikinn árangur í kosningunum en það er ekki að raungerast.

Fyrir nokkrum vikum var alvarlega til umræðu að landsliðsmarkvörður Íslands í handbolta síðustu 15 árin, Björgvin Páll Gústavsson, hygðist bjóða sig fram fyrir flokkinn. Vakti það mikla athygli og var talið geta tryggt Framsókn góðan árangur í borginni en flokkurinn hefur engan borgarfulltrúa sem stendur, þrátt fyrir að fjöldi borgarfulltrúa sé 23.

Björgvin Páll er dáður íþróttamaður sem allir landsmenn þekkja af góðu einu og margvíslegum afrekum á handboltavellinum. Hann stóð í marki Íslands þegar silfrið vannst á Ólympíuleikunum í Japan, en það er eitt mesta afrek íslenskrar íþróttasögu.

Björgvin hefur einnig vakið athygli fyrir heiðarleg viðtöl í fjölmiðlum. Þá hefur hann kynnt jákvæðar og athyglisverðar hugmyndir í málefnum barna og unglinga. Allt þetta hefði virkað vel í framboði. En Björgvin leist ekki á blikuna og gaf ekki kost á sér. Þar með var hugmynd Framsóknar um stórsókn í borginni fallin.

Um tíma var rætt um að Björgvin Páll, Einar og Ingunn Agnes Kro skipuðu þrjú efstu sætin. Ingunn er virt úr viðskiptalífinu og dóttir Valgerðar Sverrisdóttur, sem var þingmaður og farsæll ráðherra Framsóknarflokksins um árabil. Slík uppstilling hefði verið sterk. En ekki verður af því.

Athygli vekur að Einar Þorsteinsson birtist nú allt í einu hjá Framsókn. Hann hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og var formaður ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi á sínum tíma. Þegar hann hætti nýlega hjá ríkissjónvarpinu töldu margir að hann stefndi á fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Upp úr dúrnum kom hins vegar að flokksforystan hafði valið aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins til að gegna því hlutverki. Einar gerði sér ljóst að hann ætti enga möguleika í prófkjöri á móti Ásdísi Kristjánsdóttur og flokkseigendafélagi Sjálfstæðisflokksins. Vatt hann því sínu kvæði í kross og knúði dyra hjá Framsókn í Reykjavík. Og þangað er hann nú kominn.

Velta má fyrir sér heilindum þeirra sem stökkva fyrirvaralaust á milli með þessum hætti. Þeir hafa ekki miklar áhyggjur af stefnum og áherslumálum þeirra flokka sem um ræðir. Hugsanlega lítur Einar Þorsteinsson svo á að þessir flokkar séu orðnir samvaxnir og því skipti ekki máli fyrir hvorn framsóknarflokkinn hann bjóði sig fram.

- Ólafur Arnarson