Veikar varnir andrésar hins vanhæfa

Andrés Magnússon gerir veikburða tilraun til að verja gamlan vin sinn menntamálaráðherrann í Viðskiptablaðinu þann 30. apríl sl. Hann tekur fram í upphafi að hann sé skólabróðir og vinur Illuga. Þeir eru nánast fóstbræður og hefur Andrés verið sporléttur í hvers kyns útréttingum fyrir vin sinn á hans brogaða pólitíska ferli og ávalt gagnrýnislaus stuðningsmaður og viðhlægjandi hans. Þegar af þeirri ástæðu er Andrés vanhæfur að fjalla um mál Illuga Gunnarssonar með þeim hætti að gagn sé af eða að einhver geti tekið mark á umfjöllun hans.

Engu að síður er freistandi að benda á nokkur atriði vegna tilraunar Andrésar til að verja vin sinn. Hann reynir að gera því skóna að Hringbraut hafi einkum sýnt þessu máli áhuga meðal fjölmiðla. Það er alrangt. Flestir fjölmiðlar landsins hafa fjallað ítarlega um Illugamálið enda ekki við öðru að búast þegar upplýst er að ráðherra hefur gengið erinda fyrirtækis sem hann er fjáhagslega háður. Mönnum hefur í því sambandi orðið tíðrætt um siðareglur, siðferði, upplýsingaskyldu ráherra og þingmanna, gagnsæi og það hvort Íslendingar hafi ekki lært neitt af hruninu.

Fjölmiðlar hafa fjallað um málið með ýmsum hætti. Stundin.is hefur rannsakað ýmsa þætti þess og komst m.a. að því, fyrst fjölmiðla, að Illugi hafi sumarið 2013 selt íbúð sína til Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orka Energy, en fengið að dvelja áfram í henni gegn leigu sem sögð er vera 230 þús.kr. á mánuði. Þegar Stundin hafði þessar upplýsingar og var í þenn veginn að fara að birta þær, stökk ráðherra til og fór í viðtal við “útvarpið sitt”, RÚV, rétt áður en Stundin kom með niðurstöður sínar. Þá sagðist ráðherrann vilja vera fyrri til að upplýsa þjóðina um allt sem máli skipti. Þá hafi hann hrakist úr einu vígi í annað, sagt hálfsannleika og reynt að afvegaleiða íslenska fjölmiðla í nokkrar vikur. DV hefur einnig fjallað ítarlega um málið. Sama er að segja um Fréttablaðið, Visi.is, Stöð 2, Bylgjuna, RÚV, Pressuna, Eyjuna, Kjarnann og fleiri miðla. Morgunblaðið hefur ekki gefið þessu máli mikinn gaum enda ekki við því að búast að þar á bæ séu menn að gera þeim lífið leitt sem eru liprir í snúningum fyrir sægreifa og kvótahafa, þ.e. eigendur Morgunblaðsins. Þá hefur málið komið til umræðu á Alþingi þar sem ráðherra hefur svarað fyrir sig með útúrsnúningum og hroka. Alþingi hefur ekki lokið umfjöllun sinni um Illugamálið.

Um Illugamálið segir Jóhann Páll Jóhannsson, verðlaunablaðamaður á Stundinni.is: “Að Illugi hafi ekki lagt öll spilin á borðið strax lýsir ótrúlegum dómgreindarbresti. Hann virðist ekki skilja hugtakið hagsmunaárekstur, né rísa undir þeirri kröfu að stjórnmálamenn forðist athafnir sem orka tvímælis vegna hagsmunatengsla……………… Ef Illugi hefur ekki það siðferðisþrek sem þarf til að segja af sér ráðherraembætti er boltinn hjá flokknum hans. Sjálfstæðisflokknum gefst þá tækifæri til að sýna og sanna að hann hafi dregið lærdóm af hruninu.”

Náttfari ætlar að leyfa sér að spá því að Illugi hafi ekki siðferðisþrek til að segja af sér. Spurningin er hins vegar sú hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefur lært sína lexíu. Það er ekki útilokað eins og örlög Hönnu Birnu sýna. Hún var að lokun knúin til að segja af sér. En það tók langan tíma því hún hafði ekki til að bera siðferðisþrek til að víkja miklu fyrr.

Er Illugi Gunnarsson ekki karlkynsútgáfan af Hönnu Birnu?