Vilhjálmur Birgisson veitist að mér á fésbókarsíðu sinni vegna skrifa minna um brottvikningu Trúnaðarráðs VR á fulltrúm félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Vilhjálmur svarar í engu gagnrýni minni á þá óforsvaranlegu stjórnarhætti sem þessi aðgerð felur í sér, né heldur hvernig slíkt geti staðist lög. Hins vegar kýs hann að fara frekar í manninn.
Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég láta slíkum ómerkilegheitum ósvarað en Vilhjálmur vegur ekki aðeins að æru minni í pistli sínum heldur einnig æru föður míns sem lést fyrir fáum mánuðum. Slíku get ég ekki látið ósvarað.
Í pistli sínum ýjar Vilhjálmur að því að lífeyrissjóðir hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna gjaldþrots BM Vallár, sem var í eigu föður míns og ég starfaði hjá sem framkvæmdastjóri og forstjóri um átta ára skeið. Stutta svarið við því er að lífeyrissjóðir voru hvorki fjárfestar né lánveitendur BM Vallár við þrot. Tjón lífeyrissjóða vegna gjaldþrots BM Vallár var því ekkert.
Þrot BM Vallá var stórt, enda fyrirtækið umfangsmikið í rekstri og skuldsett í erlendri mynt eins og fjölmörg fyrirtæki á þeim tíma. Efnahagshrunið hafði því mjög slæmar afleiðingar á rekstur félagsins og efnahag eins og gefur að skilja enda varð gíðarlega mikill samdráttur í byggingariðnaði á þessum tíma.
Við feðgar gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að bjarga félaginu frá þroti. Við stóðum í mjög miklum og sársaukafullum hagræðingaraðgerðum í á þriðja ár þar sem rekstur félagsins var algerlega endurskipulagður. Það var aldrei greiddur arður út úr félaginu. Laun okkar feðga voru að sama skapi mjög hófleg miðað við launakjör æðstu stjórnenda fyrirtækja af sambærilegri stærð. Við börðumst með öllum tiltækum ráðum fyrir hag fyrirtækisins og starfsmanna þess. Hins vegar tókst okkur ekki að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu þess og því fór sem fór.
Blessunarlega fyrir starfsfólk fyrirtækisins var rekstur þess hins vegar aldrei stöðvaður enda hafði rekstrarleg endurskipulagning okkar á því tryggt að það var mjög vel lífvænlegt að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu eins og kom á daginn. Fyrirtækið er í miklum blóma í dag.
Vilhjálmur spyr líka hvers vegna kaupverð fyrir Sementsverksmiðjuna hafi ekki verið greitt á sínum tíma. Þessar upplýsingar liggja allar fyrir opinberlega en það er sennilega ekki efst í huga Vilhjálms. Í stuttu máli skýrist það af þeirri ástæðu að fyrirvari var gerður í kaupsamningi um samþykki ESA fyrir niðurfellingu lífeyrisskuldbindingar fyrirtækisins og hvort í því fælist ólögmætur ríkisstyrkur. Sú skuldbinding var á fimmta hundrað milljóna króna og því ljóst að forsendur kaupanna væru brostnar og fyrirtækið gjaldþrota ef óheimilt væri að fella þær niður. Það samþykki fékkst ekki fyrr en eftir að BM Vallá var komið í greiðslustöðvun í byrjun árs 2010 sem á endanum leiddi til gjaldþrots.
Ekkert óeðlilegt var í þeim viðskiptum. Og svo því sé til haga haldið þá hefði Sementsverksmiðjan að öllum líkindum farið í gjaldþrot árið 2003 ef BM Vallá hefði ekki keypt rekstur verksmiðjunnar í félagi við Björgun og norska sementsframleiðandann Norcem. Félagið hafði á þeim tíma tapað samtals 500 milljónum króna á þeim þremur árum sem liðin voru frá því Aalborg Portland hóf samkeppni á íslenskum sementsmarkaði og hafði auk þess tapað nær öllum viðskiptavinum sínum nema BM Vallá og fáeinum smærri kaupendum.
Kaupin á Sementsverksmiðjunni voru vafalítið ekki skynsamleg frá viðskiptalegum sjónarhóli. En faðir minn var ákveðinn í því að standa með verksmiðjunni, þrátt fyrir ítrekuð boð um betri kjör frá samkeppnisaðila. Hann var ötull talsmaður innlends iðnaðar og sýndi það í verki. Auk þess hafði verksmiðjan staðið með BM Vallá á erfiðum tímum og hann taldi það skyldu sína að standa með henni þarna.
Það var okkur feðgum mikið áfall þegar BM Vallá fór í þrot. Pabbi varði allri sinni starfsævi þar. Byrjaði á gólfinu á námsárum sínum og var ráðinn framkvæmdastjóri þess ári eftir að hann lauk námi. Ég lærði mjög margt á þessum árum með pabba. Bæði af þeim mistökum sem við gerðum en ekki síður af góðum stjórnarháttum, heiðarleika og prinsipp festu föður míns. Eftir fráfall hans er þessi tími með honum það dýrmætasta sem ég á.
Þess vegna get ég ekki liðið þessa lágkúru Vilhjálms Birgissonar í pistli hans. Hann má gagnrýna mig að vild. Sjálfur er ég ávallt reiðubúinn að eiga við hann rökræðu um málefni vinnumarkaðar og lífeyrissjóða. En ég geri þá kröfu til hans að hann mæti þá til slíkrar umræðu á málefnalegum grundvelli.