Vasaþjófnaður

Ég fékk fyrirspurn um daginn hvort vasaþjófnaður væri vátryggður í skilmálum fjölskyldutrygginga. Þetta var spurning sem ég líklega hefði svarað játandi ef ég hefði ekki farið að rýna skilmála vátryggingafélaganna og skoða hvort slíkt atvik væri bótaskylt samkvæmt þeim.


Vasaþjófnaður á Íslandi er tiltölulega nýr fyrir okkur og hefur frekar verið orðaður við útlandið. Símar hverfa frá fólki niðri í bæ um helgar í umtalsverðu mæli. Svo virðist sem þetta sé að verða partur af okkar daglega brauði með fjölgun ferðamanna og breyttra viðhorfa.


Varðandi skilgreiningu vasaþjófnaðar þá er Þetta er eins og margt sem er í vátryggingarheiminum, það skiptir máli hvað gerist og hvar það gerist.


Fjölskyldutryggingarnar eru allar í þá veru að ákvarða það svæði eða vettvang þar sem hlutirnir sem eru stolnir voru staðsettir og hver aðkoma atburðarins á að vera.


Þjófnaður er vátryggður í skilmálum allra félaganna. Það skiptir máli hvar sá þjófnaður á sér stað. Til dæmis í skilmálum fjölskylduverndar Sjóvár þá er tilgreint hvar eignir fjölskyldunnar eru vátryggðir. Það er í læstri íbúð, má vera ólæst ef eðlileg aðgát hefur verið við höfð. Dæmi um það er ef íbúar eru heima við þegar slíkur atburður á sér stað. í sumarhúsi, ökutæki, einkabát, einkaloftfar eða hjólhýsi ef á vettvangi eru ótvíræð merki um innbrot og svo er minnst á þjófnað úr grunnskólum.


Rán er líka tíundað en það er ef hótað er líkamlegu ofbeldi.


Þetta segir okkur það að ef stolið er hlutum í menntaskóla þá er það ekki innan skilmála eða ef barn er í sumarbúðum eða á frístundarheimili, ef það er ekki á vegum grunnsólans þá er þar ekki möguleiki á bótaskildum atburði. Sonur minn sem stundar frístundaheimilið getur verið rændur símanum sínum þar án bóta en ef símanum er stolið í skólanum klukkutíma áður, þá rúmast það innan skilmála. Stundum er erfitt að átta sig á hvert vátryggingamaðurinn sem skrifaði skilmálann að fara. Það er eins og íþróttahúsið og tónlistarskólinn geymi hættulegra fólk en grunnskólinn. Það er ólíklegt að ef vátryggingafélögin útvíkkuðu skilmála sína þar sem tómstundir skólabarna féllu innan þeirra þá þyrfti iðgjaldið að hækka mikið.


Það er sérstakt að vátryggingafélögin hafa sérstakan kafla um það að ef fólk skilur hluti eftir á glámbekk og hlutnum stolið þá er það ekki bótaskylt. Þótt þú hafir viðkomandi hlut í vasanum, sem getur varla talist til þessarar skilgreiningar um glámbekk þá er vasaþjófnaður ekki bótaskyldur og fellur því tjónið á eiganda. Ég skil ekki af hverju orðið vasaþjófnaður er ekki notaður í skilmálum fyrst félögin greiða þessi tjón ekki á Íslandi. Það er ekkert fengið með því að tilkynna slíkan atburð til lögreglu, það færir bótaskyldu ekki yfir atburðinn.


Ef aftur á móti svona atburður gerist erlendis og hann tilkynntur þar til bærum yfirvöldum þá er um bótaskyldan atburð að ræða þar sem farangur er ekki skilgreindur í hýbýlum heldur fylgifé sem tekið er með í ferðalagið.


Innbús kaskó undanþiggur þjófnað þannig að sá góði skilmáli hjálpar ekki í þeim efnum.


Niðurstaðan er sú að skilmálar vátryggingafélaganna bæta ekki vasaþjófnað innanlands nema í grunnskólum.


Vátryggingar eru ekki til að forðast tjón heldur til að koma til hjálpar og milda afleiðingar. Þarna er tækifæri fyrir eitthvert þeirra að slá hinum við. Reyndar er nýr aðili að koma með vátryggingar á farsíma, VISS ehf., sem hægt verður að kaupa um leið og slíkur gripur er keyptur hjá símafyrirtækjunum. Mér skilst að vasaþjófnaður falli innan skilmála hjá þeim.