Þó enn séu 17 mánuðir til kosninga, í apríl 2017, eru framsóknarmenn beggja flokka í ríkisstjórninni byrjaðir að moka peningum úr ríkissjóði út í landsbyggðarkjördæmin til þess að að kaupa “dýru” atkvæðin til stuðnings við sig í kosningunum. “Dýru” atkvæðin eru þau sem vega tvöfallt eða jafnvel þrefalt á við atkvæði fjöldans sem býr á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík og SV-kjördæmi. Þegar fólkið í þéttbýlinu fær afhentann einn atkvæðaseðil, þá má segja að dreifbýlisfólkið fái tvo og jafnvel þrjá seðla til að nýta í kosningunum þegar tekið er tillit til misvægis atkvæða milli landsbyggðar og þéttbýlis.
Nú berast fréttir af sértækum ráðstöfunum til að laga hlut þeirra sem valið hafa að búa í Grímsey. Það á að rétta þeim mörghundruð milljónir vegna þess að þeir hafa selt frá sér kvóta og standa þar af leiðandi ekki nógu vel að vígi í rekstri útgerðarinnar. Með þessu er gefið fordæmi sem verður líklega notað af öðrum byggðalögum til að heimta styrki og sértækar ráðstafanir til sín. Takið vel eftir að þeir sem munu gera slíkar kröfur og fá sínu framgengt eru byggðalög í Norð-Austur og Norð-Vestur kjördæmunum, framsóknarkjördæmunum. Og takið einnig eftir því að þetta er rétt að byrja. Gleymum því ekki að við völd í landinu eru tveir framsóknarflokkar og ekki er neinn munur á stefnu þeirra þegar kemur að sérhagsmunagæslu gagnvart vissum atvinnugreinum og landshlutum.
Afar framsóknarleg skýrsla var birt fyrir skömmu. Hún gengur út á að ráðstafa 300 milljónum á ári næstu þrjú árin, alls 900 milljónum króna, úr ríkissjóði til að reyna að auka millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Þessir bæjir eru báðir að sjálfsögðu í kjördæmi formanns annars framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Hér er á ferðinni afar ósvífin aðgerð og inngrip í fljálsa samkeppni í flugi. Ef það er arðsamt og áhugavert að stunda millilandaflug til og frá þessum flugvöllum, þá taka einhver af þeim 20 flugfélögum sem hingað fljúga sér það fyrir hendur að halda uppi slíkum viðskiptum. Ef það er ekki arðsamt og ekki vit í því, þá á ekki að reyna að knýja það fram með ríkisstyrkjum og niðurgreiðslum sem reyndar virðast vera á mörkum þess að brjóta EES reglur sem okkur ber að fara eftir.
Þessi vinnubrögð eru hins vegar alveg í anda gamla Framsóknarflokksins sem hefur gegnum tíðina unnið nákvæmlega svona, t.d. í gegnum Byggðastofnun og Byggðasjóð sem hefur kostað íslenska skattborgara milljarðatugi frá stofnun árið 1971 og afar litlu góðu komið til leiðar. Eins væri hægt að rifja upp hvernig Stefán Valgeirsson var keyptur til stuðnings við vinstri stjórnina árið 1988 með því að leyfa honum að valsa með mörghundruð milljónir króna sem hann mátti útdeila að vild í sínu nærumhverfi. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn unnið og þannig mun hann áfram vinna.
Það er öllu sorglegra að hinn framsóknarflokkurinn, sem heitir Sjálfstæðisflokkur, skuli taka undir þessa stefnu. Hann hefur hingað til gefið sig út fyrir að styðja frjálsa samkeppni, alla vega í orði, en ekki alltaf á borði eins og sannast nú þegar hann stendur að því að ætla að setja 900 milljónir í sjóð til að skekkja samkeppni í flugi með þeim hætti sem til stendur. Einu sinni beitti Sjálfstæðisflokkurinn sér fyrir stefnu sem nefnd var BÁKNIÐ BURT en þá átti að draga úr ríkisafskiptum og sjóðasukki. Nú er öldin önnur þegar flokkurinn styður framsóknarsukk af þessu tagi.
Markaðsþróunarsjóður á annar sjóðurinn að heita og Áfangastaðasjóður heitir hinn. Samtals verða settar 300 milljónir króna á ári í þessa sjóði af skattpeningum landsmanna. Enn einn sjóðurinn, enn eitt báknið. Þessu verður svo stýrt af 7 manna stjórn. Ekki dugar minna fyrir þetta gæluverkefni. Stjórnin verður skipuð fulltrúum þriggja ráðherra, forsætis, iðnaðar og fjármála. Auk þeirra verða fulltrúar Ísavía, Íslandsstofu, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar. Vonandi geta ráðherrarnir skipað einhverja vildarvini eða ættingja sína í þessa stjórn til að rífast um það hvernig á að útdeila þessu skattfé, 300 milljónum á ári.
Það er grátbroslegt að horfa upp á þessi vinnubrögð. Reyndar hlægilegt að vita til þess að það þurfi 7 manna stjórn til að véla um þessar 300 milljónir á ári á sama tíma og stærsta fyrirtækið í ferðaþjónustu, Icelandair, sem veltir 200 milljörðum á ári, lætur sér nægja að hafa 5 manna stjórn.
En svona er framsóknarsukkið í reynd. Verið vel á verði. Við eigum eftir að sjá miklu meira af þessu tagi á næstu 17 mánuðum.