Fylgi ríkisstjórnarflokkanna heldur áfram að minnka og er komið niður í 34 prósent samtals, ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups þar sem 5.000 svör fengust. Svo stóra könnun verður að taka alvarlega. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur verið á stöðugri niðurleið síðustu 12 mánuðina í öllum skoðanakönnunum, bæði Gallups og annarra sem gera fylgiskannanir. Hér er því ekki um neinar tilviljanir eða frávik að ræða.
Ríkisstjórnin er rúin trausti og ekki er með nokkru móti boðlegt lengur að Katrín Jakobsdóttir leiði ríkisstjórn þegar fylgi flokks hennar hefur minnkað um helming frá síðustu þingkosningum, er komið niður í 6 prósent sem Gallup segir að mæli flokknum einungis 3 þingmenn í stað þeirra átta sem flokkurinn náði í síðustu kosningum. Ef þetta yrði niðurstaða kosninga þá fengi flokkurinn einungis Katrínu, Guðmund Inga og Svandísi kjörin á þing en engan fulltrúa úr landsbyggðarkjördæmunum.
Niðurstaða þessarar stóru könnunar er með svipuðum hætti og verið hefur síðustu mánuði. Samfylkingin er langstærsti flokkurinn með tæp 30 prósent en stuðningur Sjálfstæðisflokksins er í kringum 20 prósent. Þessar tölur eru að festast í sessi. Gallup áætlar fjölda þingmanna sem hvert framboð fengi: Samfylkingin næði 21 þingmanni og bætti við sig 15 frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn næði 14 sætum en er nú með 17. Framsókn fengi einungis 4 menn kjörna en hefur nú 13 þingmenn og þarf að horfast í augu við algert hrun. Píratar fengju 6 þingmenn kjörna, Viðreisn og Miðflokkurinn 5 þingmenn hvor flokkur, Flokkur fólksins 4, Vinstri græn 3 eins og fyrr segir og Sósíalistaflokkur Gunnars Smára næði einum kjördæmakjörnum fulltrúa. Samkvæmt þessu mælist flokkur forsætisráðherra með minnst fylgi þeirra átta þingflokka sem nú eiga sæti á Alþingi.
Ekki verður séð að nokkur leið sé að bjóða þjóðinni upp á það að formaður minnsta stjórnmálaflokksins leiði ríkisstjórnina lengur. Það er algerlega óboðlegt og í raun grímulaus afskræming lýðræðisins. Katrín Jakobsdóttir er rúin trausti og henni tekst engan veginn að halda friði á stjórnarheimilinu eins og mörg dæmi sýna, þar á meðal sá einstaki atburður sem varð í síðustu viku þegar utanríkisráðherra sniðgekk forsætisráðherra þegar tekin var stórpólitísk ákvörðun um afstöðu Íslands til hitamáls á alþjóðlegum vettvangi. Fróðir menn telja að aldrei í stjórnmálasögu Íslands hafi forsætisráðherra verið sýnd önnur eins vanvirðing.
Flest bendir til þess að forsætisráðherra sé að missa móðinn. Orðrómur hefur lengi verið um að Katrínu dreymi um að komast í þægilega stöðu hjá alþjóðastofnun og hefur UNESCO í París einkum verið nefnt í því samhengi en þar er um að ræða menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Væntanlega hefur hugur hennar staðið til þess að geta haldið ríkisstjórninni gangandi fram á árið 2025 en síendurteknir neikvæðir atburðir á vettvangi stjórnarinnar benda til þess að það hljóti að vera borin von. Þá eru nú blikur á lofti um möguleika hennar á flottri forstjórastöðu í alþjóðlegri stofnun þegar hún getur ekki einu sinni haft taumhald á sínum eigin utanríkisráðherra.
Þótt enginn viti á þessari stundu hvernig vandræðagangur ríkisstjórnarinnar endar telja æ fleiri að stjórnin muni ekki endast mjög lengi í viðbót, varla allan þann þingvetur sem nýlega er hafinn. Komi til kosninga, t.d. á vori komanda, má fastlega búast við því að Katrín Jakobsdóttir hverfi af vettvangi íslenskra stjórnmála og Svandís Svavarsdóttir taki við formennsku í flokki Vinstri grænna. Hún væri vís með að færa flokkinn lengra til vinstri og hefja harða varnarbaráttu gegn Sósíalistaflokki Íslands sem hefur rænt Vinstri græna fylgi vegna þess hve hörðum vinstri mönnum hefur mislíkað dekur Katrínar við Sjálfstæðisflokkinn og NATO sem leitt hefur til þess að Vinstri græn hafa gefið frá sér flest baráttumál sín og eru nú um stundir hvorki vinstri né græn. Ekki er einu sinni hægt að skopast með það lengur að VG standi fyrir „Vinir Garðabæjar“.
Verði úrslit næstu kosninga í samræmi við þessa nýjustu skoðanakönnun Gallups blasir við að Samfylkingunni yrði falið að mynda næstu ríkisstjórn. Það gæti flokkurinn gert með stuðningi Viðreisnar og Pírata, samkvæmt áætlaðri skiptingu þingsæta miðað við könnun Gallups – og eins gæti flokkurinn komið kjósendum í opna skjöldu með því að mynda einfaldlega tveggja flokka ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þvert á allar yfirlýsingar beggja flokka. Önnur eins svik hafa ítrekað orðið í íslenskum stjórnmálum, nú síðast þegar Sjálfstæðisflokkurinn lét gott heita að færa Vinstri grænum forystuhlutverk í núverandi vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur.
- Ólafur Arnarson