Með seinagangi í óformlegu spjalli um hugsanlega stjórnarmyndun er engu líkara en Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn séu að reyna að láta stórsigur Framsóknar og tap sitt gleymast sem mest.
Katrín Jakobsdóttir lætur eins og hún hafi fengið traustsyfirlýsingu í kosningunum. En það er öðru nær. Flokkur hennar tapaði 5 prósentustigum í fylgi og missti þrjá þingmenn, fór úr 11 þingmönnum í kosningunum 2017 og niður í átta. Flokkurinn tapaði nær 30 prósent af þingmannafjölda sínum milli kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einu prósenti milli kosninga og hlaut næstverstu útreið sína í Íslandssögunni. Það var aðeins árið 2009, eftir hrunið sem flokknum var kennt um, sem niðurstaðan var örlítið lakari en núna.
Framsókn vann stórsigur og bætti við sig fimm þingsætum, fór úr átta og upp í 13 þingmenn. Vegna þess hélt ríkisstjórnin meirihluta – þrátt fyrir tap hinna flokkanna.
Í ljósi þessa má spyrja hvort Sigurður Ingi sé ekki sjálfsagður til að leiða nýja ríkisstjórn? Í raun ætti það að blasa við. En Katrín heimtar að sitja áfram sem forsætisráðherra þrátt fyrir stórtap Vinstri grænna. Bjarni Benediktsson virðist styðja hana í því. Hvers vegna? Ætli það sé nú ekki bara til að freista þess að gera sem minnst úr stórsigri Framsóknar?
Spyrja má hvort framsóknarmenn séu svo geðlausir að láta slíkt yfir sig ganga?
Nú tala formenn þríflokksins um að viðræður „gangi vel“ og það þurfi að „leysa“ nokkur erfið mál. Lítum á dæmi:
1. Hálendisþjóðgarður er hjartans mál Vinstri grænna en sjálfstæðismenn og Framsókn lýstu því fortakslaust yfir fyrir kosningar að hann kæmi ekki til greina. Munu Vinstri græn éta það ofan í sig fyrir völd og ráðherrastóla – eða verður það hlutskipti sjálfstæðis- og framsóknarmanna?
2. VG er á móti aukinni raforkuframleiðslu en hinir vilja átak og það strax. Verður þá virkjað á hálfum straumi til að „leysa“ þann ágreining? Sama gildir um rammaáætlunina. Verður hún bara hálf?
3. Vinstri græn börðust allt liðið kjörtímabil fyrir breyttri stjórnarskrá. Árangur Katrínar í því var eitt stórt NÚLL. Á að taka annað kjörtímabil í endurtekinn skrípaleik um þetta?
4. Sjálfstæðisflokkur krefst þess að fá heilbrigðisráðuneytið til að bjarga því úr klóm algerrar ríkisvæðingar. Vinstri græn eru á móti öllu utan ríkisbáknsins þar. Svandísi verður ýtt út. Munu Vinstri græn una því fyrir valdastöður?
5. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti lækkun skatta á strætóskýlum og víðar. Vinstri græn vilja hækka skatta á „ríka pakkið“. Varla fellst Bjarni á það – verandi í þeim hópi sem og allir hans nánustu. Hvernig „leysa“ menn það? Kannski eins og síðast þegar fjármagnstekjuskattur var hækkaður tafarlaust þrátt fyrir allar auglýsingar Sjálfstæðisflokksins: „Við lækkum skatta!“
Já, einmitt, lækka skatta með því að hækka þá!
6. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn vilja selja 65 prósent af Íslandsbanka og borga inn á uppsafnaðan skuldahala ríkissjóðs. Vinstri græn eru á móti allri sölu ríkiseigna. Þau vilja bara safna ríkisskuldum og trúa því að slíkt valdi ekki aukinni verðbólgu og vaxtahækkunum. Skrítin hagfræði það.
Grundvallarágreinugur af þessu tagi verður ekki leystur með orðagjálfri eða sjónhverfingum.
7. Vitað er að sjálfstæðismönnum er upp til hópa meinilla við Svandísi Svavarsdóttur og eru staðráðnir í að hrekja hana út úr heilbrigðisráðuneytinu. En hvar geta þeir þá sætt sig við hana í ríkisstjórn? Þar er úr vöndu að ráða. Ekki vilja þeir hana í menntamálaráðuneytið sem æðsta yfirmann RÚV, ekki láta þeir henni eftir að stýra lögreglunni, dómstólunum eða þjóðkirkjunni úr dómsmálaráðuneytinu og þeir vilja hana alls ekki í atvinnuvegaráðuneytin. Ætlisamstæða gæti orðið um hana innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra?
Það yrði raunar mjög fróðlegt!
Já, já, aðeins þarf að „leysa“ nokkur smærri mál til að vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns sósíalista á Íslandi, geti haldið ótrauð áfram enn um sinn.
- Ólafur Arnarson