„VARIST VINSTRI SLYSIN“ hrópa sjálfstæðismenn af slysstað

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarás í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og Steingrímur J. Sigfússon, guðfaðir sósíalistaflokka á Íslandi, hefur verið forseti Alþingis síðustu fjögur árin í skjóli Sjálfstæðisflokksins.
Af þeim sökum er beinlínis hjákátlegt að heyra frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins æpa sig hása með viðvörunum um mögulega vinstri stjórn eftir komandi kosningar. Kjartan Magnússon frambjóðandi varar við vinstri stjórn í blaðagrein í dag og talar um vinstri slys. Engu er líkara en Kjartan viti ekki af því að flokkur hans hefur verið í vinstri stjórn síðustu fjögur árin og unað hag sínum býsna vel í hagsmunagæsluhlutverki fyrir þá allraríkustu í landinu, einkum sægreifa. Kjartanmun að vísu hafa verið búsettur í Brussel eftir að flokkurinn bolaði honum út úr borgarstjórn Reykjavíkur og ef til vill ekki fylgst vel með hérna heima.
Ef vinstri stjórnir á Íslandi eru slys – sem er alveg raunhæf ályktun – þá verður ekki annað sagt en að nú sé Sjálfstæðisflokkurinn staddur á slysstað. Raunar má færa sterk rök fyrir því að flokkurinn hafi valdið því vinstra slysi sem nú er. Kjartan og aðrir frambjóðendur verða að gera sér ljóst að kjósendur eru ekki fífl. Þeim er alveg fyllilega ljóst að Katrín Jakobsdóttir er sósíalistaleiðtogi og ríkisstjórn hennar vinstri stjórn.
Miðað við hróp og köll sjálfstæðismanna um vinstri stjórnarhættu virðist mat þeirra vera, að til séu tvær mismunandi tegundir vinstristjórna á Íslandi:
Í fyrsta lagi séu til GÓÐAR vinstri stjórnir. Það eru vinstri stjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að.
Og í öðru lagi séu til VONDAR vinstristjórnir. Það eru vinstri stjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki að vera með í.Og þegar Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki að vera með er enginn til að standa órofa vörð um sérhagsmuni sægreifa.
- Ólafur Arnarson