Leikarinn og uppistandarinn Pétur Jóhann Sigfússon fer á kostum sem gestur Sigmundar Ernis í þættinum Mannamál í kvöld.
Pétur Jóhann sló í gegn í þættinum 70 mínútur sem sýndur var á sjónvarpstöðinni PoppTíví á sínum tíma, en aðrar stjörnur þáttarins voru þeir Auðunn Blöndal og Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi. Í þáttunum drukku þeir félagar reglulega ógeðisdrykki og var sá dagskrárliður ansi vinsæll. Aðspurður hver hafi verið versti drykkurinn sem hann lét inn fyrir sínar varir, svarar Pétur Jóhann því að úldin síld, Surströmming,hafi slegið öllu við í þeim efnum.
„Við ældum allir eftir á og fyrirtækið varð mjög reitt út í okkur á eftir, vegna þess að þarna fengum við bara stúdíóið lánað í klukkutíma á dag í hádeginu. Þarna var verið að lýsa íþróttakappleikjum, Höddi magg og allir vinir hans að lýsa öllu sem gekk á og það hafði bara meira pláss heldur en einhver fíflagangsþáttur á PoppTíví. Og þarna opnuðum við þessa dós í hádeginu og lyktin lagði yfir allt fyrirtækið, bara á fjörutíu mínútum og það var sagt: „Hvaða ógeð er þetta! Hvað voruð þið að gera?!“ segir Pétur Jóhann.
„Og þá voru þarna Heimir Már Pétursson og allir þarna reiðu kallarnir: „ Hvað voruði að gera hérna, við erum að reyna að vinna!“ Og við alveg: „Já við líka, þó við séum á typpinu þá erum við að vinna sko!“ Það varð bara allt brjálað.“ Segir Pétur og skellir uppúr.
Pétur segir Sveppa, meðstjórnanda þáttarins, hafa fengið dósina af síldinni hjá einhverjum manni úti á götu.
„Það var bara maður úti á götu sem gaf honum þessa dós og hún var bólgin. Hún á að vera úldin en þessi var margra ára gömul. Hún var það úldin að dósin var öll bólgin og þegar hann opnaði hana, þá sprakk hún yfir hann, og yfir okkur alla og yfir borðið og ég byrjaði strax að kúgast. Þetta var bara eins og hann hefði grafið upp lík. Ég get aldrei lýst þessari lykt það er ekki hægt.“