Varaformannsblús í sjálfstæðisflokknum: framsóknarmaður eða reynslulaus stúlka.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan öflugan forystumann til að taka við varaformennsku í flokknum en kjósa þarf varaformann á landsfundi þann 18. mars.

Mikil krafa er um að varaformaður flokksins verði kona eins og verið hefur allt frá árinu 2005. En Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki teflt fram neinni öflugri konu í stöðu varaformanns. Þær sem helst hafa verið nefndar eru ungar stúlkur sem eru að hefja stjórnmálaferil sinn og hafa enga boðlega reynslu til að gegna þessu mikilvæga embætti. Þá er vísað til Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur ráðherra og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur þingmanns en báðar þykja þær hafa valdið vonbrigðum í þeim embættum sem þeim hefur þegar verið trúað fyrir.

Nú dettur mönnum helst í hug að gera Harald Benediktsson bónda og þingmann að varaformanni flokksins. Haraldur er öflugur þingmaður en margir líta á hann sem hreinræktaðan Framsóknarmann og telja að hann sé í röngum flokki. Miðað við áherslur hans og grundvallarskoðanir ætti hann frekar heima í Framsókn eða Miðflokknum.

Illa er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum þegar hann getur ekki lengur mannað embætti varaformanns með öflugum og reyndum Sjálfstæðismanni.

Um áratugaskeið hafa einungis þungavigtarstjórnmálamenn gegnt varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum; fólk eins og Jóhann Hafstein, Geir Hallgrímsson, Gunnar Thoroddsen, Magnús Jónsson frá Mel, Friðrik Sophusson, Geir Haarde, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ólöf Nordal svo einhverjir séu nefndir.

Rtá.