Var sannfærður um að ég væri tossi

Snævar Ívarsson sagði áhorfendum Hringbrautar örlagasögu sína á mánudagskvöld, en allt frá því hann man eftir sér á eyrinni á Akureyri hefur hann glímt við alvarlega lesblindu - og var sannfærður um það sem krakki að hann væri tossi og myndi aldrei geta lært.

Viðtalið er nú sjáanlegt hér á vef stöðvarinnar, en óhætt er að segja að það hafi vakið mikla athygli, jafn áhrifaríkt og það er að heyra Snævar lýsa mótlætinu í Oddeyrarskóla á Akureyri þar sem stafirnir vöfðust svo mjög fyrir honum að hann kolféll í öllum kjaftafögum, ár eftir ár. Raunar endaði skólagangan svo að hann komst ekki upp úr barnaskóla - og var niðurlægingin svo mikil þegar hann freistaði þess að taka efsta bekkinn aftur að hausti með sér yngri krökkum, þar á meðal yngri bróður sínum, að hann gafst upp og lét sig hverfa að norðan, búinn að tapa fyrir sjálfum sér og endanlega sannfærður um að hann gæti ekki lært.

Raunar er það ofsagt, því Snævari gekk alltaf vel í teikningu í skóla og var verðlaunaður fyrir það fag í Oddeyrarskóla - og þar var raunar komin enn ein skýringin á meðfæddum vanda hans; rýmisskilningur lesblindra er alla jafna mjög góður, þótt annað verði sagt um lesturinn.

Í þættinum rekur hann margar sögur af sjálfum sér þar sem hann hefur komist í klandur vegna lesblindunnar; allt getur þar snúið á hvolf í kolli manns, jafnvel það eitt að kaupa sér bíl á fullorðinssaldri.

Hann hefur um árabil ferðast um landið og frætt skólakrakka um lesblindu í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Félags lesblindra á Íslandi á síðari árum - og því má segja að skólaganga hans standi enn yfir og sjái ekki fyrir endann á henni.

Örlögin eru endursýnd á Hringbraut um komandi helgi.