Ræða sem Bjarni Benediktsson flutti á ársfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) í vikunni hefur verið talsvert til umræðu hjá þeim fjölmörgu sem sóttu fundinn. Ræðan þótti heldur rislág. Forsætirráðherra talaði mest um útgjöld og skatttekjur ríkisins. Sessunautur Náttfara á fundinum hnippti í hann og spurði hvort Bjarni héldi að hann væri ennþá fjármálaráðherra og velti því fyrir sér hvort hann hefði tekið með sér skakka ræðu.
Fundarmenn áttu von á að forsætisráðherra kæmi með öfluga ræðu og boðaði stefnu og framtíðarsýn sem hefði verið tilvalið á fundi heildarsamtaka atvinnulífsins. Ríkisstjórnin er 80 daga gömul og nýr forsætisráðherra hefði haft gullið tækifæri til að tala til atvinnulífsins og þjóðarinnar og sýna leiðsögn. En hann nýtti tækifærið ekki.
Ríkisstjórnin hefur afnumið gjaldeyrishöft sem er henni til sóma. Að forsætisráðherra skyldi ekki gera það að umtalsefni í ræðu sinni og draga ályktanir af þessari staðreynd þannig að með þessu stæðu Íslendingar á þröskuldi nýrra tíma, er með ólíkindum. Að hann skyldi ekki hvetja forystu atvinnulífsins til dáða er einnig með ólíkindum. Eina sem er minnisstætt úr ræðu Bjarna Benediktssonar voru dapurleg tíðindi sem hann flutti um auknar skattaálögur á ferðaþjónustuna þvert á öll loforð fyrir kosningar. Ríkisstjórn hans ætlar að hækka virðisaukaskatt á þessa atvinnugrein um 11,5% strax á næsta ári. Með því má ætla að fótum verði kippt undan mörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, einkum þó litlum og meðalstórum fyrirtækjum á landsbyggðinni sem eru veikburða og skuldsett.
Ferðaþjónustan hefur átt langmestan þátt í endurreisn Íslands eftir hrun. Greinin hefur þurrkað upp atvinnuleysi, komið fjárfestingum af stað, gert mikla kaupmáttaraukningu mögulega og styrkt gjaldeyrisstöðu landsins verulega. Um er að ræða vaxandi en viðkvæma atvinnugrein. Haldi ríkisstjórnin að hún geti skattlagt greinina með svo afgerandi hætti á jafn skömmum tíma og um ræðir, þá mun hún valda atvinnugreininni umtalsverðum skaða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Menn geta ekki bara reiknað úr skattahækkanir í exel án þess að meta neikvæðar afleiðingar samhliða. Umrædd tvöföldun á virðisaukaskatti mun ekki skila neinum 16 milljörðum króna á ári í ríkissjóð eins og ráðherrar segja. Hún mun skila ríkissjóði neikvæðu fjárstreymi.
Forsætisráðherra sem hefur ekki annan boðskap að færa atvinnulífinu en skattahækkanir, er ekki að veita þá forystu sem krefjast verður af mönnum í þeirri stöðu. Forsætisráðherra sem hefur enga sýn mun ekki endast lengi í því embætti.