Gunnar Smári Egilsson, fyrrum stórforstjóri, er sósíalistaleiðtogi um þessar mundir. Hann hefur farið fyrir Sósíalistaflokki Íslands sem mælist ekki með kjörna þingmenn samkvæmt flestum skoðanakönnunum. Gunnar heldur því hins vegar fram í fjölmiðlum að flokkur hans muni rífa til sín fylgi í komandi kosningum.
Fyrir því færir hann álíka trúverðug rök og Trump færir nú fram út af meintu kosningasvindli í Bandaríkjunum.
Hitt er svo annað mál að takist Gunnari Smára að fá þjóðþekkta vinstri menn í framboð gæti það dregið að nokkuð fylgi sem kæmi þá mest frá Vinstri grænum og Flokki fólksins sem gæti þá horfið af Alþingi.
Gunnar Smári mun væntanlega reyna að fá Sólveigu Önnu, Ragnar Þór, Drífu Snædal og fleiri af öfgavinstrimönnum verkalýðshreyfingarinnar til að fara í framboð fyrir sig. Takist það, yrði það áfall fyrir Vinstri græna sem gætu þá lent í miklum hremmingum.
Fylgi Vinstri grænna hefur sópast burt á yfirstandandi kjörtímabili og mældist einungis 7,5 prósent í nýlegri skoðanakönnun í stað 16,9 prósent í síðustu kosningum. Samkvæmt því hefur meira en helmingur kjósenda yfirgefið flokkinn. Komi Sósíalistaflokkur Gunnars Smára fram með þokkalega lista, gætu þeir tætt fylgi af Vinstri grænum og Flokki fólksins. Þessi þrjú framboð munu berjast um sama fylgið og skipta á milli sín stuðningi 15 til 20 prósent kjósenda ef að líkum lætur.
Svo má velta því fyrir sér hvaða erindi Gunnar Smári og félagar gætu átt inn á Alþingi annað en að standa fyrir málþófum og öðrum truflunum á störfum þingsins.
Engar líkur eru á að flokkur Gunnars Smára kæmi að myndun ríkisstjórnar þar sem borgaralega sinnaðir flokkar myndu aldrei ljá máls á samstarfi við flokkinn.
Framboð Sósíalistaflokks Íslands mun fyrst og fremst valda andvökunóttum hjá forystufólki Vinstri grænna og Ingu Sæland.
Á öðrum bæjum munu menn bara fylgjast með baráttunni í „villta vinstrinu“ og njóta.