Sjálfstæðisflokkinn dreymir um að komast aftur til einhverra áhrifa í borgarstjórn Reykjavíkur. En það er ekki að fara að gerast.
Nú er minna en eitt ár í sveitarstjórnarkosningar og flokkurinn finnur engan sem er líklegur til að leiða lista flokksins til aukins fylgis. Í kosningum vorið 2014 fengu sjálfstæðismenn einungis 4 borgarfulltrúa kjörna sem er það lélegasta frá upphafi. Halldór Halldórsson leiddi listann og um hann var og er engin sátt innan flokksins. Hann er samt líklegastur til að leiða áfram. Ekki munu hinir borgarfulltrúarnir ógna forystu hans og enginn öflugur maður er í sjónmáli til að taka við þessu vanþakkláta hlutverki.
Nefnd hafa verið ýmiss nöfn en ekkert þeirra er þekkt eða líklegt til að draga fylgi að Sjálfstæðisflokknum. Borgar Þór Einarsson er stundum nefndur. Í fyrsta lagi verður ekki séð að hann gæti laðað fylgi að lista flokksins og í öðru lagi fer hann varla að henda frá sér þægilegu starfi aðstoðarmanns utanríkisráðherra þar sem í boði eru skemmtileg ferðalög, veislur og endalaus partý fyrir vonlausa og leiðinlega stjórnarandstöðu í borgarstjórn.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur stórveldi í Reykjavík eins og var. Í alþingiskosningunum sl. haust var fylgi flokksins í borginni 25%. Slíkt fylgi gefur einungis 4 borgarfulltrúa af 15 og mundi halda flokknum áfram áhrifalausum í stjórn borgarinnar.
Ekki bætir úr skák að Dagur B. Eggertsson spilar nú út hverju trompinu á fætur öðru varðandi lóðir fyrir litlar íbúðir handa ungu fólki sem vantað hefur á höfuðborgarsvæðinu. Hann gæti unnið næstu kosningar á lóðamálunum - andstætt því sem áróður minnihlutans hefur gengið út á.
Sjálfstæðismenn í borginni eru ráðþrota.
rtá