Valkvæð vandlæting

 

Það er auðvitað leiðinlegt að stuðningur við hræðilegt stríð, þar sem önnur fylkingin er í hlutverki Golíats en hin í hlutverki Davíðs (sennilega ekki sömu sögulok og í biblíunni þó) skuli hafa leitt til þess að farþegar Icelandair og WOW air hafi afbókað flugferðir hingað til lands vegna hins svokallaða sniðgöngumáls sem beinist gegn vörum frá Ísrael.

Það er líka leiðinlegt að stjórnsýslan sé ekki vandaðri en raun ber vitni hér á landi.

Það er leiðinlegt fyrir Dag B. Eggertsson borgarstjóra að sjálfstæðismenn krefjist afsagnar hans.

Það er leiðinlegt fyrir okkur sem þjóð að hinir sömu og krefjast afsagnar Dags hafi ekki séð ástæðu til að setja fram sömu kröfu gagnvart Hönnu Birnu þegar lekamálið kom upp.

Það er heilmargt leiðinlegt við þetta allt en kannski hafa fáir náð að ramma inn kjarna málsins með eins skýrum hætti og Þóra Kristín Árnadóttir blaðamaður. Hún ritar eftirfarandi færslu á facebook: „Ég held að sú flóðbylgja vandlætingar og reiði sem hefur skollið á samfélaginu vegna þess að ekki var nægilega vandað til stjórnsýslu fyrir flutning einnar tillögu sé meiri en samanlögð vandlæting íslensku þjóðarinnar vegna morða á saklausum borgurum á hernumdu svæðunum. Hvað segir það um okkur sem þjóð?\"