Í örvæntingarfullri varnarbaráttu sinni þessa síðustu daga fyrir kosningar slær Sjálfstæðisflokkurinn um sig með innantómum upphrópunum. Samkvæmt öllum skoðanakönnunum sem birtar hafa verið er fylgi flokksins í frjálsu falli og mælist kringum tuttugu prósent sem er hrun frá þeim 30,8 prósentum sem flokkurinn náði fyrir fjórum árum undir forystu Eyþórs Arnalds. Nú er hann fjarri góðu gamni og flokksmenn eru farnir að sakna hans.
Flokkurinn birtir heilsíðuauglýsingu í dag með mynd af Hildi Björnsdóttur, oddvita listans, og þeirri fyrirsögn að valið sé skýrt í kosningunum á laugardag. Kjósa verði Sjálfstæðisflokkinn til að koma fram breytingum varðandi stefnu og rekstur borgarinnar. Þetta er ekkert rökstutt. Einungis er um upphrópanir að ræða.
En veltum fyrir okkur hvað þurfi að gerast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti vænst þess að eiga aðild að meirihlutamyndun í borginni þegar haft er í huga að skoðanakannanir hafa verið að mæla fylgi flokksins þannig að hann fái fjóra, fimm eða í besta falli sex borgarfulltrúa kjörna. Gefum okkur að flokkurinn nái sex borgarfulltrúum af þeim 23 sem kjörnir verða. Þá vantar hann aðra sex borgarfulltrúa til að geta myndað meirihluta með tólf fulltrúum. Hvaða flokkar eru líklegir til að vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum að myndun meirihluta í borginni?
- Píratar hafa lýst því ítrekað yfir að þeim muni alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. Þeim er spáð þremur borgarfulltrúum.
- Samfylkingin er höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins í borginni og einnig á Alþingi. Vitanlega vill flokkurinn ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingu er spáð sex eða sjö borgarfulltrúum.
- Viðreisn hefur tekið þátt í farsælu meirihlutasamstarfi í borginni á yfirstandandi kjörtímabili og hlýtur að vilja halda því áfram. Það vantar öll rök fyrir því að Viðreisn færi að vinna með Sjálfstæðisflokki í borginni. Viðreisn er spáð tveimur borgarfulltrúum.
- Sósíalistaflokkur Íslands er eins langt frá Sjálfstæðisflokknum málefnalega og hugsast getur. Ekki fer hann að vinna með íhaldinu. Sósíalistaflokknum er spáð tveimur borgarfulltrúum.
- Flokkur fólksins hefur aldrei átt neina málefnalega samleið með Sjálfstæðisflokknum. Flokki fólksins er spáð einum borgarfulltrúa.
- Þó að Vinstri græn hafi Sjálfstæðisflokkinn með sér í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, þá hefur flokkurinn unnið mjög vel með núverandi meirihluta í borginni og hefur enga ástæðu til að vilja frekar samstarf við aðra flokka en þá sem mynda þann meirihluta. VG er spáð einum borgarfulltrúa.
Þá eru ekki eftir aðrir flokkar til að fjalla um sem mögulega samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins en Miðflokkinn og Framsóknarflokkinn. Miðflokkurinn hefur unnið mjög þétt með Sjálfstæðisflokknum í stjórnarandstöðunni í fjögur ár. En allar skoðanakannanir sem birtar hafa verið gera ráð fyrir því að Miðflokkurinn fái engan mann kjörinn.
Framsóknarflokkurinn fékk engan mann kjörinn í síðustu kosningum. Hann er líklegur til að koma að borgarfulltrúum að þessu sinni, sennilega tveimur. Framsóknarflokkurinn gæti væntanlega haft áhuga á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Og þar með er upp talið!
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn gætu samtals fengið átta borgarfulltrúa og í mesta lagi níu. En það dugar engan veginn til.
Það er því röng ályktun og ekkert annað en innantómur uppsláttur í auglýsingu Sjálfstæðisflokksins að kjósa þurfi Sjálfstæðisflokkinn til að breytingar verði í Reykjavík.
Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í stjórnarandstöðu í Reykjavík og Hildur Björnsdóttir verður enn einn einnota oddviti flokksins í borginni.
- Ólafur Arnarson.