Leikarinn Valdimar Örn Flygering var hætt kominn þegar hann var að renna sér á skíðum niður árfarveg í þröngu gili hjá skriðjöklinum í Valla Blanche. Valdimar Örn lýsir atvikinu á Facebook-síðu sinni.
„ ....þegar ég hitti fyrir örlagakvendið í formi ljóshærðrar sænskrar fegurðardísar. Sem sagt þarna var hún kominn, dúkkuversjónin af Svíagrýlunni sjálfri. Hún hafði stoppað í miðju þröngu ísgili til að taka, selfí“ Akkúrat í hraðasta parti gilsins á hólnum þar sem maður gat aðeins hægt á sér fyrir enn þrengri part,“ segir Valdimar og heldur áfram:
„Af meðfæddum vanmætti mínum gagnvart fegurðinni og æskublómanum og til að stórslasa ekki dísina ákvað ég að reyna að skjótast framhjá henni og því á allt of mikilli ferð og krassaði beint í ísstálið.“
Segir Valdimar að hann hafi hrunið niður og legið óvígur eftir. Hin sænska renndi sér í burtu án þess að huga frekar að Valdimar og segði áður en hún hélt ferð sinni áfram að hún vonaðist til að væri í lagi með hann.
„Ég var hins vegar að læknisráði settur í kraga og á börur og hífður upp úr gilinu í þyrlu og á nærliggjandi spítala,“ segir Valdimar og kveðst hafa afþakkað morfín. „Lá svo í anddyrinu á spítalanum á brettinu úr þyrlunni og með kraga um hálsinn þar sem ég var færður úr fötunum.“
Valdimar átti að liggja hreyfingarlaus þar til hann yrði myndaður.
„Stutta versjónin er sú að ég útskrifaði mig sjálfan eftir fjórar klukkustundir og tók taxa uppá hótel þar sem ég ligg nú og sleiki sár mín. Það var fyndið upplitið á samsjúklingum mínum í anddyrinu þegar ég reif af mér kragann, stóð upp og staulaðist út. Gamli arabinn í næsta rúmi brosti kankvíslega til mín og lofaði Allah“
Lærdómurinn að mati Valdimars er eftirfarandi: „Aldrei að stoppa í þröngu ísgili þar sem von er á skíðafólki á hraðferð til að taka selfí, sama hversu sæt konan heldur að hún sé og að sextugir kallar eru líka manneskjur, þrátt fyrir allt,“ segir Valdimar og bætir við: „Því að á legsteininum mínum hefði sem sagt auðveldlega getað staðið „over his dead body.“ Valdimar birtir einnig myndir sem voru teknar eftir slysið. Hann segir svo að lokum: „Eftir á að hyggja er þessi uppákoma öll mjög dæmigerð fyrir líf mitt.“