Valdasjúkan Ragnar Þór langar á Alþingi


Formaðir VR hefur lengi alið með sér þann draum að komast á þing. Hann bauð sig fram á sínum tíma og leiddi lista öfgasmáflokks í Reykjavík. Þá fékk hann fjölda tækifæra til að lýsa skoðunum sínum og tillögum í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum.

En allt kom fyrir ekki og listi Ragnars Þórs fékk nær ekkert fylgi. Það var nægilegt framboð af Ragnari Þór - en nánast engin eftirspurn. Listinn naut einungis stuðnings eins prósents kjósenda. Ragnari hlotnaðist því ekki sú upphefð að komast á þing.

Hann dreymir samt ennþá um valdið sem fylgir störfum löggjafans. Í tengslum við það uppnám sem orðið hefur í þjóðfélaginu undanfarna daga vegna Samherjamálsins hefur hann slegið því fram að nú verði launþegahreyfing landsins að stofna stjórnmálaflokk til höfuðs spillingu.

Ragnar Þór segir alla stjórnmálaflokka ónýta og vanmáttuga enda ráði þeir ekkert við spillingaröflin í samfélaginu. Ætla má að skoðanasystkinum hans í vinstri flokkunum þyki þetta kaldar kveðjur. Hvað ætli vinunum í Flokki fólksins, Pírötum og Vinstri grænum þyki um sneiðar Ragnars?

Áður en Ragnar Þór, Sólveig Anna, Drífa Snædal og Vilhjálmur Birgisson stofna sérstakan spillingarflokk verkalýðsrekenda með peningum úr sjóðum launafólks væri ráð að rannsaka fyrst spillinguna innan launþegahreyfingarinnar.

Því miður fyrir Ragnar Þór og félaga bendir flest til þess að ekkert jafnvægi verði milli framboðs og eftirspurnar.

Það skortir eftirspurn og því verður draumurinn um þingsæti ekki að veruleika.