Útvarpsstjóri rúv veit betur

RÚV á að fara af auglýsingamarkaði samkvæmt tillögum nefndar á vegum menntamálaráðherra. Nefndin vill einnig að RÚV fari af fjárlögum. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur skrifað varnargrein og vill ekki sleppa neinum tekjum sem renna nú til RÚV. Það er skiljanlegt út af fyrir sig en gera verður þá kröfu til manns í stöðu Magnúsar að hann rökstyðji mál sitt með faglegum hætti.

Það gerir hann ekki þegar hann heldur því fram að það myndi ekki bæta stöðu einkamiðla að RÚV færi út af auglýsingamarkaði! Þetta er vitanlega hreint bull. RÚV tekur til sín marga milljarða króna í auglýsingatekjur á ári. Ætlast útvarpsstjóri til þess að menn trúi því að milljarða auglýsingafé leitaði ekki annað ef það rynni ekki til RÚV?  Magnús Geir veit betur!

Ef RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði eins og nefnd ráðherra leggur til, þá ættu þeir milljarðar sem RÚV tekur til sín af auglýsingum að dreifast á aðra miðla. Væntanlega fengju aðrar stjónvarps-og útvarpsstöðvar mikinn hluta þeirra tekna. En ætla má að allir einkareknir miðlar fengju eitthvað til sín. Hagur allra myndi vænkast. Og ekki veitir af.

Lýðræðinu stendur ógn af því hve veikir einkareknir fjölmiðlar eru. Við höfum séð marga þeirra gefast upp og verða gjaldþrota. Nýjustu dæmin eru Fréttatími Gunnars Smára og sjónvarpsstöðin ÍNN. Þá urðu eigendaskipti nýlega á DV, Eyjunni, Pressunni og fleiri miðlum eftir að fyrri rekstraraðilar sigldu rekstrinum í strand. Til eru margar harmsögur íslenskra fjölmiðla áratugi aftur í tímann sem ekki er ástæða til að rifja upp nú. Alltaf hefur ríkið verið fyrirferðarmikið á auglýsingamarkaði með RÚV og hjálpað til við að kippa rekstrargrundvelli undan einkareknum miðlum.

Ágætt jafnvægi getur skapast með því að RÚV sé á sínum stað en án auglýsinga, stóru blöðin, Stöð 2 og Síminn ásamt nokkrum minni miðlum sem þurfa að hafa afl til að veita aðhald og auka breidd í fjölmiðlun hér á landi. Þá er að sjálfsögðu verið að vísa til okkar hér á Hringbraut, sjónvarpsstöðvarinnar N-4, DV, Pressunar, Eyjunar, Kjarnans og Stundarinnar.

Litlu, frjálsu, miðlarnir eru samviska þjóðarinnar. Það þarf að bæta rekstrargrundvöll þeirra með því að draga RÚV út af auglýsingamarkaði. Og það STRAX!

Ekki er eftir neinu að bíða. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur niðurstöður nefndarinnar fyrir framan sig. Nú reynir á hvort hún getur eitthvað og gerir eitthvað eða hvort hún bætist í röð þeirra menntamálaráðherra sem komu engu í verk á valdatíma sínum í ráðuneytinu. En þar er vitanlega vísað til Katrínar Jakobsdóttir, Illuga Gunnarssonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Rtá.