Áhugaverðar umræður hafa skapast á Facebook vegg fjölmiðlamannsins Jakob Bjarnar í dag er hann opnaði á umræður um bílslysið á Seltjarnarnesi um helgina.
Alvarlegt bílslys varð á Seltjarnarnesi um helgina eftir kappakstur tveggja ungra ökumanna. Fimm voru fluttir á slysadeild í kjölfarið.
Miklar umræður hafa skapast um slysið og hegðun ungmennanna en lögreglan vill lækka hámarkshraða eftir áreksturinn. Jakob er ekki á því að það muni skila árangri.
„Mér verður illt í rökhugsuninni þegar menn segja vert að lækka hámarkshraða vegna spyrnukeppni ungra ökuþóra,“ skrifar Jakob á Facebook og taka fjölmargir undir með hönum.
Útvarpsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson er meðal þeirra sem leggur orð í belg og bendir á að lögreglan sé meira í að sekta löghlýðna borgara sem fara rétt yfir hámarkshraða.
„Ég var sektaður fyrir of hraðan akstur í vikunni sem leið - í miðbænum á Akranesi á 37 km hraða. Ég var líka sektaður á leið til mömmu í kaffi í fyrra á 37. Löggan situr fyrir annars löghlýðnum borgurunum á ómerktum bíl og flassar á lögbrjótana. Ég spurði lögreglumanninn sem flassaði á mig í vikunni hvers vegna þeir væru að þessu og hann sagði: Til þess að ná niður hraðanum. Ég er búinn að vera að hugsa um þetta síðan. Hraðakstur er hættulegur ig hraðinn drepur. En er yfirvöldum svona annt um okkur borgarana að þau sekta okkur fyrir að vera á 37 á leiðinni í kaffi til mömmu,“ skrifar Óli Palli.
„Þetta er ömurlegt að heyra. Vonandi tekst einhvern tíma að koma í veg fyrir bílslys. Ég veit ekki um nokkurn mann sem vonar það ekki. En ég get lofað ykkur því að það verður ekki gert með heimskuna að vopni. Ef þetta snýst um tótal skotleyfi löggunnar á borgara, eins og þetta dæmi sýnir glögglega, þá eiga menn bara að segja það,“ svara Jakob en hægt er að fylgjast með umræðunum á vegg Jakobs hér að neðan.