Kanadískur auðkýfingur hefur fest kaup á jörðinni Horni í Skorradal en innan hennar er hið þekkta fjall Skessuhorn. Hyggst hann byggja þar 1.000 fermetra villu og 700 fermetra gestahús. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins.
Fjallið Skessuhorn er bæði þekkt fyrir fegurð sína og sem vinsæl gönguleið fjallgöngumanna. Er það eitt þekktasta fjall Borgarfjarðar og af því dregur héraðsblaðið heiti sitt.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru kaupendurnir hjón í yngri kantinum og eiginmaðurinn auðgaðist í tæknigeiranum. Þau keyptu jörðina með aðstoð umboðsmanns hjá félaginu Nordic Luxury.
Jörðin Horn, sem telur 110 þúsund fermetra, var sett á sölu í maí á síðasta ári og seldist á aðeins fjórum dögum. Fyrir utan fjallið liggja þrjár veiðiár um jörðina, Hornsá, Álfsteinsá og Andakílsá. Ásett verð var 145 milljónir króna en jörðin var seld á 150 milljónir.
Ekkert eiginlegt íbúðarhús er á jörðinni en eitt af fjárhúsunum hefur verið gert upp sem íbúð. Ekki stendur til að rífa nein hús jarðarinnar að svo stöddu. Í febrúar var gefið út byggingarleyfi fyrir tveimur byggingum. Annars vegar 1.000 fermetra húsnæði fyrir hjónin og svo 700 fermetra gestahús, sem mun innihalda íþróttahús.
Þegar er byrjað að vinna að grunni húsanna sem verða reist ofar í fjallshlíðinni en núverandi hús standa. Búist er við því að eiginleg bygging hefjist í apríl og ljúki árið 2025.