Útgerðarmenn vilja ekki vera í grátkór

Enginn gerir lítið úr mikilvægi sjávarútvegs í þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Sjávarútvegur er sveiflukennd atvinnugrein eins og vitað er og margsannað. Stundum gengur vel og stundum verr. Ræðst ekki síst af sjálfum veiðunum annars vegar og ástandi á mörkuðum hins vegar.

Á seinni árum og áratugum hefur stærri sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi tekist afar vel upp við að dreifa rekstraráhættu milli greina. Botnfiskveiðar lúta ekki sömu lögmálum og veiðar á uppsjávarfiski, saltfiskur selst á öðrum mörkuðum en ferskfiskur og enn annað gildir um tegundir eins og síld ,loðnu og makríl. Þetta vita allir og þekkja að yfirleitt gengur ekki vel á öllum vígstöðum eða illa á öllum vígstöðvum.

Loðnuveiðar brugðust í fyrra á meðan ýmsar aðrar greinar sjávarútvegs blómstruðu. Svo virðist sem loðna sé ekki að finnast við Ísland núna og því gæti stefnt í að vertíðin bregðist aftur. Þetta er veruleiki sem sjávarútvegurinn þarf að fást við og ætti ekki að valda neinu sérstöku uppnámi.

Þá bregður svo við að Vestmannaeyjingar reka upp mikið kvein og beina því til stjórnvalda að þau bæti heimamönnum upp þann missi sem hlýst af lélegri eða engri loðnuvertíð. Morgunblaðið flytur nú stöðugar fréttir af kröfugerð Eyjamanna og birtir meðal annars stórt viðtal við bæjarstjórann sem undirbýr kröfur á hendur ríkisvaldinu og krefst „mótvægisaðgerða”. Hún ætlar að koma á fundi með þremur ráðherrum til að fjalla um málið. Ekki verður slík kröfugerð skilin á annan hátt en þann að krafist sé fjármuna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Talað er um að fyrirtæki og fólk í Eyjum hafi „tekið á sig mikið högg” í fyrra og geti ekki endurtekið það á þessu ári.

Nú er það svo að á undanförnum allmörgum árum hefur verið gríðarlegur hagnaður af loðnuveiðum og vinnslu. Sem betur fer. Sá hagnaður hefur meðal annars fallið til stærri sjávarútvegsfyrirtækja í Eyjum. Hagnaðinn hafa eigendur annars þeirra t.d. notað til mikilla fjárfestinga í fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu án þess að ríkið hafi krafist neinnar hlutdeildar í þeim fjárfestingum. Ríkið er ekki að biðja um neitt umfram lögbundna skatta þegar vel gengur og ríkið á þá heldur ekki að borga brúsann þó á móti blási tímabundið.

Meðal þeirra fjárfestinga sem hér er vísað til eru kaup á Íslensk ameríska, sem er eitt stærsta matvælasölufyrirtæki landsins með innan sinna vébanda dótturfyrirtæki eins og Ora, Mylluna og Frón. Einnig voru fest kaup á Fastus, Lýsi, Prentsmiðjunni Odda, með Plastprent, Kassagerðina og Umbúðamiðstöðina á sínum snærum, þriðjungshut í Morgunblaðinu og risafasteignum á Korputorgi svo eitthvað sé nefnt. Fjárfest var í öllu þessu þegar hagnaður af loðnuvertíðum var mikill. Ríkið krafðist ekki neins hlutar af þessu.

Ríkið á heldur ekki að borga þegar hallar á sömu aðila tímabundið.

Því verður ekki trúað að íslenskir útgerðarmenn vilji almennt láta bendla sig við grátkór Eyjamanna. Þeir eru vanir að bjarga sér sjálfir og koma sér út úr vandræðum fyrir eigin vélarafli.