Utanríkisráðherrar í áhættuhópi stjórnmálamanna

.Guðlaugur Þór Þórðarson, nýskipaður utanríkisráðherra, verður að gæta sín þannig að ekki fari fyrir honum eins og flestum forverum hans sem gegnt hafa embætti allt frá árinu 1991.

Sagan kennir okkur að embætti utanríkisráðherra hefur oftast markað upphafið að pólitískum endalokum þeirra eða beinlínis reynst vera endastöð utanríkisráðherranna í stjórnmálum.

Þessi ráðherrastóll hefur reynst vera sjóðheitur og jafnvel beinlínis hættulegur fyrir pólitískan feril stjórnmálamanna sem sumir hverjir hafa verið meðal þeirra áhrifamestu á Íslandi á síðasta aldarfjórðungi.

Hvort mikil og ströng ferðalög eða óhófleg veisluhöld hafa valdið þessu skal ósagt látið. Víst er að Guðlaugur Þór þarf að hafa varann á sér svo ekki fari fyrir honum eins og hinum.

Lítum á dæmin:

 

1. Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra árin 1991 til 1995. Eftir það hætti hann fljótlega í stjórnmálum og tók við sendiherraembætti.

 

2. Halldór Ásgrímsson tók þá við í 9 ár, gerðist forsætisráðherra í stuttan tíma en sagði þá af sér.

 

3. Davíð Oddsson staldraði við sem utanríkisráðherra í eitt ár en sagði þá af sér ráðherraembætti.

 

4. Geir Haarde var utanríkisráðherra minna en eitt ár, fram í júní 2006. Gerðist þá forsætisráðherra fram í ársbyrjun 2009 þegar stjórn hans fór frá völdum. Þá hætti Geir í stjórnmálum.

 

5. Valgerður Sverrisdóttir tók við af Geir í eitt ár en þá féll Framsókn út úr ríkisstjórn.

 

6. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var utanríkisráðherra \"hrunstjórnarinnar\" frá 2007 til 2009 og hætti eftir það í stjórnmálum.

 

7. Þá tók Össur Skarphéðinsson við starfi utanríkisráðherra til vors 2013. Hann var svo felldur af Alþingi í kosningunum fyrr í vetur og er hættur í stjórnmálum.

 

8. Of snemmt er að dæma um örlög þeirra Gunnars Braga og Lilju Alfreðsdóttur sem gegndu embætti utanríkisráðherra í síðustu stjórn.

Talsverð óvissa er þó um pólitíska framtíð þeirra - eins og alls Framsóknarflokksins.

Náttfari segir við Guðlaug Þór:

Sporin hræða. Eins gott að ganga hægt um gleðinnar dyr!