Utanríkisráðherra kastar steini úr glerhúsi

Morgunblaðið birtir í dag viðtal við utanríkisráðherra vegna upplausnarinnar í breskum stjórnmálum eftir að Brexit samningur ríkisstjórnarinnar var felldur.  Blaðið er svo ánægt með svar ráðherrans að því er slegið upp yfir þvera forsíðuna.

Það sem Morgunblaðinu þótti svo merkilegt í svari utanríkisráðherra er þessi setning: „Nú getur enginn sagt að það sé lítið mál að ganga í Evrópusambandið því það sé ekkert mál að ganga úr því aftur.“

Skoðum þetta nánar.

Í fyrsta lagi er það ósatt að því hafi verið haldið fram að lítið mál sé að ganga í Evrópusambandið. Það er flókið og stórt mál og enginn hefur haldið öðru fram. Ráðherrann grípur hér augljóslega til rangra staðhæfinga vegna þess að hann skortir málefnaleg rök.

Í öðru lagi eru það ósannindi að niðurlæging breska forsætisráðherrans þegar þingið felldi viðskilnaðarsamninginn sé til marks um að erfitt sé að ganga úr sambandinu. Aðildarríki Evrópusambandsins eru tilbúin til þess að kveðja Breta á þeim tíma sem þeir óskuðu. Vandræðin stafa öll af því að breska íhaldsríkisstjórnin kemur sér ekki saman um eitt eða neitt. Og Verkamannaflokkurinn þorir ekki að hafa skoðun.

Bretar tóku ákvörðun um aða ganga úr Evrópusambandinu. Íhaldsflokkurinn logar hins vegar stafnanna á milli vegna þess að meirihluti hans vill ýmist vera í sambandinu að hálfu eða öllu þrátt fyrir þjóðaratkvæðið. Aðeins öfgafyllstu Brexitsinnarnir vilja hreina útgöngu. Þetta er ástæðan fyrir því að útgangan er snúin. Hún er Evrópusambandinu með öllu óviðkomandi.

Utanríkisráðherra er í svipaðri stöðu sjálfur. Hann hefur lofað að leggja fram á Alþingi svokallaðan þriðja orkupakka Evrópusambandsins vegna aðildar okkar að innri markaði þess. Ráðherrann getur ekki sinnt skylduverki sínu í þessu efni vegna þess að baklandið í Sjálfstæðisflokknum og nokkrir þingmenn hans eru því andvígir.

Sumir sjálfstæðismenn vilja ganga úr innri markaði Evrópusambandsins. Aðrir vilja byrja á því að stöðva þriðja orkupakkann. Og þriðji hópurinn styður hvort tveggja áframhaldandi aðild og þriðja orkupakkann. Utanríkisráðherrann veit svo ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.

Það er alvarlegt að segja ósatt eins og ráðherrann gerði og grefur mjög verulega undan trúverðugleika hans. En hitt er broslegt í meira lagi að hann skuli kasta steini úr glerhúsi.