Sala á fyrirtæki í eigu Íbúðalánasjóðs er óskiljanleg og mun valda leigjendum skaða. Þetta segir Gunnar Alexander Ólafsson í pistli á eyjan.is en hann hefur BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg.
Fyrirsögn pistils Gunnars ber fyrirsögnina „Kletturinn hverfur“. Þar upplýsir hann að ríkisvaldið hafi ákveðið að hefja söluferli á merku fyrirbæri sem heiti Leigufélagið Klettur, dótturfélag Íbúðalánasjóðs. Leigufélagið hafi leigt út íbúðir um land allt og bjóði einstaklingum uppá langtímaleigu á húsnæði, sniðið að þörfum leigjenda. Klettur hafi boðið leigjendum upp á öryggi á leigutíma sem finnst ekki á almennum markaði í dag.
Leigufélagið var aðgerð Guðbjarts heitins Hannessonar þáverandi velferðarráðherra til að auka framboð á húsnæði til langtímaleigu og mæta óskum vaxandi hóps leigjenda.
„Ætíð hefur verið mikil eftirspurn eftir íbúðum félagsins. Úti er ævintýri því nú hefur verið ákveðið að selja fyrirtækið. Þessi félagslega tilraun til að skapa leigjendum öryggi til langs tíma er á enda komin. Leigufélagið hefur verið vel rekið og hefur notað hagnað til að fjölga íbúðum. En hvaða áhrif mun sala á fyrirtækinu hafa?“ Spyr Gnnar.
Hann svarar spurningu sinni sjálfur:
- Leiguverð mun hækka, því kaupendur þurfa að fá fjárfestingu sína til baka á ákveðnum tíma.
- Leigutími verður takmarkaður og óöryggi leigjenda eykst.
- Staða núverandi leigjenda mun veikjast ásamt því að gera nýjum leigjendum erfiðara fyrir að leigja hjá þeim.
„Vegna framangreindra atriða er salan á fyrirtækinu óskiljanleg. Fyrirtækið er vel stætt og hefur skilað tekjum til Íbúðalánasjóðs. Tilurð þess hefur skapað öryggi hjá þúsundum einstaklinga sem hafa loks séð fram á öryggi í langtímaleigu.
Salan vekur einnig upp spurningar í ljósi þess að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004. Í stað þess að auka þjónustu fyrirtækisins og gefa fleiri leigjendum kost á að njóta öryggis á leigumarkaði hafa yfirvöld félagsmála í landinu (Félagsmálaráðuneyti og Íbúðalánasjóður) ákveðið að auka óöryggi þessa hóps.“
Þá rekur Gunnar sögu fjölskyldu (hjóna með tvö börn) sem kom heim úr námi 2008. Þau höfðu góðar tekjur en áttu ekkert eigið fé. Þau voru yfir tekjumörkum félagsmálayfirvalda þannig að þau gátu ekki leigt t.d. hjá Félagsbústöðum. Þau gátu staðið undir hárri leigu.
„Fólkið fagnaði tilkomu Kletts og höfðu verið á biðlista eftir íbúð hjá þeim. Á þeim átta árum sem þau hafa verið á leigumarkaði hafa þau þurft að flytja fimm sinnum því þau hafa þurft að sæta því að leiguhúsnæðið hefur verið selt og þeim gert að rýma húsnæðið.
Það sem er átakanlegast við þeirra sögu er að tvö barna þeirra hafa verið í fimm mismunandi skólahverfum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi staða hefur valdið óþarfa kvíða og óþægindum hjá börnunum. Fjölskyldan er fórnarlömb aðstæðna og eina sem hún þráir er að komast í gott langtímaleigu húsnæði. Með sölu á Kletti er verið að slökkva á vonum þessa fólks.