Þór Whitehead fyrrverandi prófessor í sagnfræði fer hamförum í grein sem hann birtir í Morgunblaðinu í dag. Hann tilheyrir hópi flokkseigenda í Sjálfstæðisflokknum sem halda að Eyþór Arnalds geti eitthvað hjálpað flokknum í komandi borgarstjórnarkosningum. Umrædd klíka saman stendur af fólki eins og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, Birni Bjarnasyni, Davíð Oddssyni, Kjartani Gunnarssyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Baldri Guðlaugssyni og svo Þór.
Fyrst útmálar greinarhöfundur ástandið í borginni með þeim hætti að ætla mætti að ekki sé unnt að komast milli húsa í borginni vegna skipulagsleysis annars vegar og óaldarflokka hins vegar. Allt virðist vera í ólestri, mannvirki að hruni komin og gatnakerfið ónýtt vegna “skorts á viðhaldi og endurnýjun”.
Nú hittist þannig á að sá hluti gatnakerfisins sem er til vandræða eru “þjóðvegir í þéttbýli” sem eru alfarið á könnu Vegagerðar ríkisins og ríkissjóðs. En Þór kennir núverandi borgastjóra persónulega um áratuga vanrækslu á þessu sviði.
Hann kennir þessum sama borgarstjóra einnig um “hálfónýtt Orkuveituhús” sem var reist rúmum áratug áður en hann tók við embætti borgarstjóra. Um þetta ónýta Orkuveituhús ætti Þór frekar að ræða við vin sinn Alfreð Þorsteinsson, framsóknarmann, sem ber alla ábyrgð á því slysi sem þar varð.
Þór býsnast yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki náð völdum í Reykjavík eftir árið 1994. Á því eru eðlilegar skýringar sem hann og aðrir félagar hans verða að horfast í augu við. Flokkurinn er á niðurleið og hefur verið lengi. Það mun ekki breytast.
Þór telur nú að lausnarinn sé fundinn í Eyþóri Arnalds frambjóðanda því hann hafi náð einhverjum árangri í sveitarfélaginu Árborg árið 2010. Hafa verður í huga að íbúar Árborgar eru um 5% af íbúafjölda Reykjavíkur og því engan vegin hægt að líkja þessu saman. Það er enginn að segja að skipstjóri trillu geti stýrt skuttogara af stærstu gerð.
Og það sem er allra berst í sundurtættum málflutningi Þórs er tal hans um skuldabagga Reykjavíkur upp á 112 milljarða króna sem hann telur að Eyþór muni ráða við betur en aðrir. Þá hefur hann væntanlega til hliðsjónar fjármálasnilli hans tengda fyrirtækinu Becromal Iceland ehf. á Akureyri sem Eyþór stofnaði. Tap Becromal nam rúmum 5 milljörðum króna árið 2016, samkvæmt upplýsingum Frjálsrar verslunar, en veltan var einungis 9 milljarðar það ár.
Vantar Reykvíkinga fjármálasnillinga af þessu tagi til að sitja í borgarstjórn? Svarið við því er nei.
Rtá.