Í viðtali sem birtist á netfréttasvæði Hringbrautar eftir að fréttaskýringarþátturinn Kvikan birti fyrir tveimur vikum sláandi og átakanlegt sjónvarpsviðtal við Fanneyju Björk Ásbjörnsdóttur, lýsti fyrrverandi heilbrigðiráðherra þeirri skoðun sinni að barátta Fanneyjar ætti eftir að skila miklum árangri til umbóta í þágu jafnaðar innan heilbrigðiskerfisins.
Fanney Björk er lifrarbólgusmitaður leikskólakennari í Vestmannaeyjum. Í dag tilkynnti heilbrigðisráðherra að barátta hennar fyrir því að fá lyfið Harvoni við lifrabólgu C hefði borið ávöxt. Heilbrigðisráðherra tilkynnti að allir lifrarbólgusmitaðir sjúklingar á Íslandi myndu geta fengið lyfið sem kostar um 10 milljónir króna, sér að kostnaðarlausu. Fanney grét af gleði þegar hún heyrði tíðindin. Hún hafði áður upplifað synjun kerfisins á því að hún fengi lyfið sem dauðadóm.
Baráttusaga Fanneyjar er teikn um mikilvægi þess að fólk stígi fram þegar það er beitt órétti. Saga Fanneyjar er einnig merki um mátt og mikilvægi fjölmiðla. Með því að ljá máli sem kannski var að týnast í kerfinu undir einhverju númeri, með því að ljá máli Fanneyjar nafn, rödd og andlit, miðla baráttu hennar, sýna samhygð, beita stjórnvöld þrýstingi í átt til umbóta, hafa flestir ef ekki allir helstu fjölmiðlar landsins sinnt einu æðsta kallinu. Sigur Fanneyjar er sigur frjálsrar fjölmiðlunar og þeirrar stefnu að rækta aðhalds- og eftirlitshlutverkið. Slíkir sigrar vinnast sjaldnast án átaka.
Sá sem hér skrifar leyfir sér fyrir hönd Hringbrautar að óska Fanneyju og samfélaginu öllu til hamingju með daginn. Um leið skal henni þökkuð baráttan og hugrekkið að stíga fram þrátt fyrir fordómana. Það var stór ákvörðun eins og hún greindi frá í sjónvarpsþættinum Kvikunni sem horfa má á hér.
Þeir blaða- og fréttamenn sem lögðu hönd á plóg í viðleitni til að uppræta óréttinn sem varðaði líf og dauða geta sagt börnunum sínum að e.t.v. hafi þeir síðustu vikur átt örlítinn þátt í að bjarga mannslífum. Þjóðin tók svo við keflinu. Málalokin sýna að heilbrigðisráðherra er maður af holdi og blóði.
Um leið hefur barátta Fanneyjar skerpt á þeim vilja íslensku þjóðarinnar að heilbrigðisþjónustan á að vera öllum ætluð, enda er sá réttur varinn í stjórnarskrá og með fleiri lögum.