Uppskriftir með rabarbara sem enginn má láta framhjá sér fara - hreint lostæti

Veðrið hefur leikið við landsmenn á Suðvesturhorninu í sumar og gróðurinn, sérstaklega rabarbarinn, hefur notið sólargeislana og uppskeran er hin vænlegasta. Sjöfn Þórðar fór í heimsókn í Vesturbæinn og heimsótti Kristínu Edwald hæstarréttarlögmann og okkar Mörthu Stewart, vegna hæfileika hennar í eldhúsinu, og fékk að líta á nýjustu afurðir hennar úr rabarbara. Kristín er mikill matgæðingur, bæði listakokkur og bakari. Einnig er allt svo fágað og vandað sem hún gerir og augljóst að metnaðurinn er mikill í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

„Ég var svo heppin að Lilja vinkona mín og meðeigandi minn á LEX gaf mér svo flottan rabarbara um daginn. Ég fór alveg á flug í eldhúsinu og gerði rabarbarasýróp, rabarbara í pækli, rabarbaraköku og rabarbara- og jarðaberjasultu. Afganginn af rabarbaranum frysti ég í hæfilegum skömmtum til að eiga þegar mér leiddist. Mér finnst nefnilega svo gaman að gera alls konar sultur, sýrt grænmeti og yfirhöfuð allan mat sem lítur vel út í sætum krukkum. Núna er ísskápurinn hjá mér reyndar eins og ég eigi von á að þurfa að vera sjálfbær með allan mat í marga mánuði. Ísskápurinn er sko fullur af allskonar í sætum krukkum og sumarið rétt að byrja,“ segir Kristín og er alsæl með kræsingarnar sem bíða hennar.

\"\"

Uppskriftirnar fylgja hér með en Kristín leggur áherslu á að muna þarf að sjóða allar krukkur og lok í að minnsta kosti 10 mínútur og láta kólna áður en þær eru notaðar.

Rabarbarasýróp

Ég nota það til dæmis út á jógúrt, ab-mjólk og grauta, í drykki og út á ís.

5 bollar niðurskorinn rabarbari

1 bolli vatn

1 bolli sykur

Soðið saman í smá stund og látið renna í gegnum fínt sigti eða klút. Sett í hreinar krukkur og geymt í kæli.

Rabarbari í pækli

Ég nota hann í salat og sem meðlæti.

Niðurskorinn rabarbari

2-3 bollar vatn

1 msk.salt

2 msk. agavesýróp

1/2 bolli eplaedik.

Öllu blandað saman í skál og látið standa í u. þ. b. klukkustund. Rabarbaranum er síðan þjappað þétt í hreina krukku og pæklinum hellt yfir. Lokið krukkunni og látið standa á borði í 5-7 daga en svo í kæli.

Rabarbarakaka

3 bollar niðurskorinn rabarbari

Malaður engifer

4 msk. hunang

1 bolli haframjöl

1 bolli hveiti, spelt eða annað mjöl

1-2 msk.

kanill 3 msk.

kókosolía eða smjör

Rabarbarinn látinn malla smá stund í potti með möluðum engifer og hunangi. Blandan sett í ofnfast mót. Deigið er hnoðað gróflega saman og því svo dreift dreift yfir. Bakað við 190 gráður þar til liturinn er fallegur, í um það bil 25-30 mín. Ís eða rjómi er ómissandi með.

Rabarbara- og jarðarberjasulta

3 bollar niðurskorinn rabarbari

1 1/2 bolli jarðarber skorin í helminga

1 bolli sykur

1 msk. ferskur sítrónusafi

Setjið allt saman í pott og sjóðið á meðalhita. Hrærið regulega í þar til rabarbarinn hefur losnað í sundur og blandan hefur þykknað. Kælið og setjið í hreinar krukkur.