Uppskriftir: Frönsk súkkulaðikaka með berjum og þeyttum rjóma og marengsbomba með dumble karamellusósu sem hitta í mark

Síðustu misseri hefur Una Dögg Guðmundsdóttir sem er mikil áhugamanneskja um bakstur og matargerð verið iðin að prófa sig áfram með ljúffengum kökum í eftirrétt.  Sjöfn Þórðar fékk Unu Dögg til að gefa lesendum uppskriftir af tveimur einföldum og klassískum kökum sem allir ættu að ráða við að baka og töfra fram á skömmum tíma eins og fyrir áramótaveislurnar sem framundan eru.  Una Dögg segir að báðar kökurnar passi vel með ljúffengu kaffi og kampavíni og eigi vel við á gamlárskvöld.  Annars vegar er þetta frönsk súkkulaði kaka með girnilegum berjum sem tilvalið er að bera fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.  Hins vegar er það marengsbomba með ljúffengri karamellusósu sem hittir ávallt í mark.

Frönsk súkkulaðikaka á klassíska mátann

450 g Síríus konsum 56% súkkuladi

250 g smjör

6 stk egg

100 g hveiti

Byrjið á því að hita ofninn við 220°C gráðu hita.  Bræðið saman smjör og súkkulaði í potti við vægan hita. Þeytið síðan eggin vel eða þar til blandan verður lètt og ljós. Blandið síðan súkkulaðiblöndunni saman við.  Smyrjið vel 24 cm form og hellið blöndunni í og bakið í um það bil 12-15 mínútur.  Leyfið kökunni að kólna í um það bil 1-2 klukkustundir áður en hùn er borin fram með þeyttum rjóma og/eða vanilluís og kláss af ferskum berjum. 

Marengsbomba með Dumble karamellusósu

220 g sykur

4 eggjahvítur 

2,5 bollar Rice Crispies

1 tsk. lyftiduft

Byrjið á því að hita ofninn í 120°C gráður með blæstri. Eggjahvítur, lyftiduft og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Crispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (með blæstri) í heitum ofni í um það bil 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Þeytið svo rjóma og setjið à milli botnanna. Skreytið med berjum ad vild. 

Dumble karamellu sósa

40 g smjör

120 g Dumble karamellur

2 msk rjómi (ef þið viljið)

Bræðið saman smjör og Dumble karamellur vid vægan hita í potti, passið vel að blandan brenni ekki við og hrærið reglulega. Bætið örlitlum rjóma saman við eða um það bil 2 matskeiðum. Látið kólna og dreifið yfir kökuna þegar karamellusósan hefur kólnað og náð svolítilli þykkt.

Verði ykkur að góðu.