Uppskrift: Súkkulaði syndin ljúfa sem allir elska

Ef þú átt von á gestum og þig langar til að hitta í mark með heimsins bezta eftirrétti þá er Súkkulaði syndin ljúfa málið.  Hún hittir ávallt í mark og gestirnir standa á öndinni yfir því hve ljúffeng hún er.  Súkkulaði syndin er syndsamlega ljúffeng, þegar búið er að baka hana og hún er borin fram er þetta súkkulaði blönduð kaka með fljótandi súkkulaðimiðju sem rennur út þegar skorið er í kökuna. Mjög flott framreiðslan og bragðið ómótstæðilegt.

Uppskriftin er fremur einföld og hægt er að gera blönduna fyrirfram, jafnvel einum, tveim dögum áður og geyma í ísskáp. Hins vegar er bökunartíminn mikið nákvæmisverk.  Ef bökunartíminn er of stuttur er hætt við að kökurnar fari í sundur þegar þeim er hvolft úr forminu en ef hann er tveim til þrem mínútum of langur verður miðjan ekki eins fljótandi og hún á að vera. Aftur á móti bragðast þær ávallt guðdómlega vel.

Súkkulaði syndin ljúfa

fyrir 6 til 8

140 g smjör (ekta íslenskt smjör er bezt, smá auka smjör til að smyrja formin)

140 g 70% dökkt súkkulaði frá Nóa og Síríus

2 egg

3 eggjarauður

140 g flórsykur

60 g hveiti

Hindber og brómber eða önnur ber að eigin vali til skreytinga

Þeyttur rjómi eða ís til hliðar þegar kökurnar eru borna fram

Byrjið á því að hita ofninn í 220°C ( ekki með blæstri).  Smyrjið 6 til 8 souffléform eða álform vel með smjöri. Stráið örlitlu hveiti í formin.  Setjið smjörið og súkkulaðið saman í pott og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið.  Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út og þeytið vel.  Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan og hrærið að lokum hveitinu saman við. Skiptið deiginu jafnt í formin, um það bil rúmlega desilíter í hvert form og gætið þess að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu eða ofnskúffu og bakið kökurnar í 11 til 12 mínútur án blásturs.  Þegar kökurnar eru búnar að vera þennan tíma eru þær teknar út og látnar kólna í 1 til 2 mínútur.  Síðan er þeim hvolft úr formunum á diska, ein á hvern disk í senn, með því að leggja disk yfir formið og hvolfa því, þá er minni hætta á því að kakan brotni í sundur. Loks er diskurinn og kakan skreytt af vild.  Fallegt er að sigta svolitlum flórsykri yfir kökurnar og skreyta með hindberjum, myntulaufum og jafnvel brómberjum.

Mjög gott er að bera kökurnar fram með þeyttum rjóma eða vanilluís sem settur er til hliðar á hvern disk í hæfilegum skammti. 

Njótið vel.