Fyrsti vetrardagurinn er í nánd og veturkonungur þegar er farinn að láta á sér kræla. Vetrinum fylgir margt skemmtilegt og gefandi eins og bókaútgáfa og meiri eldamennska oftast nær. Þessa dagana er flæða inn nýjar og spennandi bækur. Á dögunum kom út bókinni „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ þar sem sex matgæðingar og sælkerar í íslenska matarbloggaraheiminum leiða saman hesta sína með einstakri útkomum. Um er að ræða samansafn af vinsælustu uppskriftum matar- og sælkerabloggarana sem eru hinar fjölbreyttustu og kitla bragðlaukana. Bloggarnir sem um ræðir eru þær Anna Eiríks, Berglind Hreiðars, Hildur Rut Ingimars, Lólý, María Gomez og Tinna Alavis. Hér eru saman komnar einna færustu og hugmyndaríkustu matar- og sælkerabloggara sem við eigum og útkoman eftir því.
Í tilefni þessa ætlar að Sjöfn Þórðar fjölmiðlakona og sælkeri að heimsækja þær allar og fá þær til ljóstra upp sínum uppáhalds vetrarrétti og segja frá sögunni bak við hann. Sjöfn byrjaði á því að heimsækja Maríu Gomez sem er margt til lista lagt. Hún er ekki bara eldklár kokkur og bakari, heldur er hún líka mikill fagurkeri og ber heimili hennar sterk merki. Listrænir hæfileikar Maríu koma kom fram í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.
Áttu þér þinn uppáhalds vetrarrétt?
„Í svona nýstingskulda eins og er þessa dagana veit ég ekkert betra en heitar matarmiklar súpur eða góðar kássur til að verma manni á köldum haust og vetrarkvöldum. Ég held það sé alveg óhætt að segja að spænsk kjötsúpa sem heitir Potaje (lesist potahe) komi sterk inn sem einn af mínum uppáhaldsvetrarréttum en hún er ofboðslega matarmikil, bragðgóð og holl. Það er smá fyndið að hugsa til þess að ég sé að kynna þessa suðrænu súpu fyrir ykkur sem vetrarsúpu en Potaje er ekki bara borðaður á köldum dögum á Spáni heldur allan ársins hring, líka í hitanum.“
Hver er sagan bak við þennan rétt?
„Á Spáni hefur hún gjarnan verið kölluð verkamannasúpa, eða súpa fátæka mannsins, því hér áður fyrr var sett í hana í raun hvað sem var til í ísskápnum. Morcilla (spænsk blóðmör), chorizo, baunir, afgangskjöt og grænmeti var iðulega notað auk kartöflur og linsubaunir. Í þessari uppskrift geri ég Potaje eins og ég þekki hann best úr eldhúsinu hjá Ömmu og Titu Paz á Spáni.“
Eyðir þú meiri tíma í eldhúsinu á veturinn fremur enn á sumrin?
„Já ,alveg klárlega, þá er meiri rútína og maður er meira heima og innivið. Þá gefst mér meiri tími til að elda og oft finnst okkur fjölskyldunni bara gott að vera heima um helgar ef það er kalt úti og gera eitthvað skemmtilegt eins og að baka . Á sumrin tekur Ragnar maðurinn minn svoldið við og sér um að grilla en það er ansi oft grillmatur hjá okkur á sumrin.“
Hvað er það sem þér finnst skemmtilegast við veturinn?
„Satt best að segja er ég meiri vetrarmanneskja en sumar. Mér líkar vel við myrkrið og skammdegið en að kveikja á kertum og hafa kósý er eitthvað sem ég elska við veturinn. Það að allt sé í rútínu á líka afar vel við mig og þess vegna held ég að ég elski veturinn. Það er líka bara eitthvað svo hlýlegt og notalegt við veturinn nema þá ansans kuldinn sem getur alveg drepið mig stundum en ég held að genatískt séð sé íslenskur vetur ekki alveg að henta mér veðurfarslega séð enda hálfur Spánverji með mjög lítið kuldaþol,“ segir María og hlær.
María gerði þessa dásamlegu heitfengu súpu fyrir okkur og uppskriftina af henni. „Þessi uppskrift er frekar stór, en hún dugar alveg 6 -12 manns. Ég hins vegar elska að gera svona stóran skammt, því súpan verður enn betri daginn eftir og því geri ég hana fyrir tvær kvöldmáltíðir í einu. Ef þið viljið þá getið þið bætt við uppskriftina chorizo pylsu, en hún gefur svaka gott bragð. Henni má samt alveg sleppa ef maður nennir ekki að eltast við hana en súpan verður ekkert síðri fyrir vikið.“
Að sögn Maríu er ofureinfalt að elda þessa og krefst hún ekki mikils undibúnings né vesens. „Einni gallinn við sumar af þessum spænsku uppskriftum sem ég gef, er að í þær þarf að setja Colorante,“ segir María.
„Ykkur til upplýsinga er Colorante er gulur litur í duftformi sem gerir matinn gulan eins og paella til dæmis. Ég viðurkenni það alveg að liturinn gerir matinn girnilegri og ef þið eruð á leið til Spánar mæli ég með því að þið nælið ykkur í Colorante í næsta stórmarkaði. Honum er samt alveg óhætt að sleppa enda alveg bragðlaus, og það er vel hægt að nota saffran eða túrmerik í stað hans til að fá litinn eða bara sleppa honum alveg,“ segir María og er orðin spennt að njóta súpunnar sem ilmar um eldhúsið. Hægt er að fylgjast með blogginu hennar Maríu á síðunni hennar: https://paz.is/ og á Instagramsíðunni hennar paz.is
Potaje að hætti Maríu Gomez
ólífuolía
1 kg úrbeinaður grísahnakki eða annað grísakjöt (gúllas t.d). Ef þið viljið ekki nota grís þá má nota kjúkling í staðinn.
3 stórar bökunarkartöflur
2 grænar papríkur
2 gulir laukar
4-6 hvítlauksrif
1 dós chopped tomatoes
2 stór glös af grænum linsubaunum (þurfa ekki að vera útbleyttar)
2 lítrar af vatni
3-4 stykki svínasoðsteningar
Chorizo pulsa (val en gefur geggjað bragð)
salt og pipar
Colorante (gulur litur sem er keyptur á Spáni) hægt er að nota saffran eða smá turmerik til að fá gulan lit á súpuna í staðinn
Byrjið á því að afhýða laukana, takið hýðið af hvítlauksgeirunum og skerið paprikur í 6 ræmur langsum. Skrælið bökunarkartöflurnar og skerið í ágætisbita, ekki pínulitla heldur frekar stóra ferninga. Skerið næst laukana í fjóra parta langsum og berjið aðeins á hvítlaukskrifin. Setjið olíu í stóran pott þannig hún hylji botninn á pottinum. Setjið svo laukinn, hvítlaukinn og paprikuna út á heita olíuna og saltið vel og piprið. Leyfið grænmetinu að steikjast vel við háan hita og passið að hræra vel í því á meðan. Ilmurinn verður dásamlegur ég lofa. Þegar grænmetið er byrjað að mýkjast setjið þá kjötið, sem er skorið í gúllasbita, út í pottinn með grænmetinu og leyfið því að taka á sig gráan lit. Þarf ekki að steikjast þannig að það verði brúnað. Saltið aftur vel yfir kjötið og piprið. Gott er að vera búin að sjóða vatn í hraðsuðukönnu og því svo hellt (2 lítrum) út á kjötið og svínasoðsteningar með. Næst eru svo kartöflurnar og linsubaunirnar settar út á og suðan látin koma upp. Smakkið súpuna til og saltið eftir smekk. Ég vil hafa hana vel salta en þannig finnst mér hún langbest og bragðmest. Látið hana sjóða við vægan hita undir pottloki í minnst 30 mínútur. Best er að bera hana fram með stökku baguette brauði sem gott er að dýfa í heita súpuna.
Njótið vel.
Myndir frá Maríu Gomez