Uppskrift: heita súkkulaði hennar berglindar hreiðars yljar á köldum vetrardögum og súkkulaðibragðið er ómótstæðilegt

Á dögunum kom út bókinni „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ þar sem sex matgæðingar og sælkerar í íslenska matarbloggaraheiminum leiða saman hesta sína með einstakri útkomum. Um er að ræða samansafn af vinsælustu uppskriftum matar- og sælkerabloggarana sem eru hinar fjölbreyttustu og kitla bragðlaukana. Bloggarnir sem um ræðir eru þær Anna Eiríks,  Berglind Hreiðars, Hildur Rut Ingimars, Lólý, María Gomez og Tinna Alavis. Hér eru saman komnar einna færustu og hugmyndaríkustu matar- og sælkerabloggara sem við eigum og útkoman eftir því.

Í tilefni þess ætlar að Sjöfn Þórðar fjölmiðlakona og sælkeri að heimsækja þær allar og fá þær til ljóstra upp sínum uppáhalds vetrarrétti og segja frá sögunni bak við hann. Sjöfn er búin að heimsækja Maríu Gomez en næst í röðinni er Berglind Hreiðars matarbloggari- og kökubloggari með meiru.  Berglind er fagurkeri fram í fingurgóma og eldar og bakar að hjartans list. Henni finnst ekkert skemmtilegra en að töfra fram glæsilegar sælkeraveislur þar bragðlaukarnir fá að njóta sín í botn og umgjörðin gleður augað.  Berglind hugsar fyrir hverju smáatriði og hver einasta veisla er með sitt þema þar sem allt er í stíl, hvort sem það eru veitingarnar, skreytingarnar eða borðbúnaðurinn.  

\"\"

Áttu þér þinn uppáhalds vetrarrétt?
„Mér finnst mjög erfitt að svara þessari þar sem svo margar uppskriftir koma upp í hugann. Ef ég hugsa um mat verð ég að segja purusteik með brúnni sósu, matarmiklar súpur, kjöt í karrý og álíka hafi vinninginn. Heitt kakó er hins eitthvað sem ég geri ansi oft yfir vetrarmánuðina og þá er ég að tala um alvöru heitt súkkulaði með rjóma. Það tekur enga stund að útbúa það og gott að hlýja sér með heitan bolla þegar það er kalt úti. Við gerum líka alltaf heitt súkkulaði og tökum með okkur á skíði svo ég ætla að leyfa mér að segja þetta sé uppáhalds vetrarrétturinn minn þó svo þetta sé meira drykkur en réttur,“ segir Berglind og brosir.  „Ég er nýbúin að gera skemmtilega útfærslu af heitu kakói sem mig langar að deila með ykkur en venjulega set ég 1 teskeið af bökunarkakó og 1 matskeið af sykri í stað kanils og engifers svo þið getið sniðið súkkulaðið að ykkar þörfum.“

Hver er sagan bak við heita súkkulaðið?
„Amma Guðrún útbjó oft heitt súkkulaði handa okkur og á hátíðisdögum var ávallt ekta heitt súkkulaði á könnu með kaffinu og þeyttur rjómi í skál til hliðar. Það er eitthvað svo ekta og dásamlegt við að setja suðusúkkulaði í mjólkina í stað þess að nota tilbúið duft þó svo það sé stundum alveg fínt líka.“ 

Eyðir þú meiri tíma í eldhúsinu á veturinn fremur enn á sumrin?
„Já, ég myndi segja það þó svo ég eyði reyndar alltaf miklum tíma í eldhúsinu, allt árið um kring, mögulega allt of miklum,“ segir Berglind og hlær.
„Ég er kannski meira í því að baka og elda þyngri mat á veturna og síðan meira á grillinu og í léttari mat á sumrin. Það er ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með hvernig áherslurnar í mataræðinu breytast í takt við árstíðirnar og veðrið. Það er hins vegar bara mjög skemmtilegt því annars væri ekki eins mikil fjölbreytni í mataræðinu.“

Hvað er það sem þér finnst skemmtilegast við veturinn?
„Kertaljós og kósýheit, góður matur og samvera með fjölskyldu og vinum. Síðan finnst mér æðislegt að leika úti í snjónum með fjölskyldunni, gera snjókarl, snjóhús, fara á skíði og í gönguferðir, þá er einmitt fullkomið að fá sér heitt súkkulaði og eitthvað gott með því þegar maður kemur inn.“ 

Hér fyrir neðan er uppskriftin af heita súkkulaðinu og einnig má sjá bloggið hennar Berglindar um heita súkkulaðið á síðunni hennar Gotteri.is:  https://www.gotteri.is/2019/10/11/engiferkokur-og-heitt-sukkuladi/

Heitt súkkulaði með kanilkeim

Fyrir tvo

400 ml nýmjólk

80 g suðusúkkulaði

2 tsk. smjör

½ tsk. kanill

¼ tsk. engiferduft

Þeyttur rjómi eftir smekk

Byrjið á því að hita mjólk, súkkulaði og smjör saman þar til bráðið.  Setjið kanil og engiferduft saman við og blandið vel, hellið í glös eða bolla og setjið þeyttan rjóma yfir.  Hægt er að skreyta rjómann með súkkulaðispæni eða strá kakódufti yfir gegnum sigti.

Njótið vel.