Haustið lætur til sín taka þessa dagana með öllum sínum litbrigðum og gusti. Flestir eiga sína uppáhalds haustrétti og njóta þess að gefa sér tíma að elda á meðan haustið lætur að sér kveða fyrir undan gluggann. Sjöfn Þórðar spjallaði við Önnu Björk Eðvarsdóttur formann Hringsins og matarbloggara með meiru um haustið og hennar uppáhalds haustrétti. Í tilefni þess galdraði Anna Björk fram einn af sínum uppáhalds haustrétti, hæg elduð nauta stuttrif ásamt meðlæti sem láta engan ósnortinn. Matargestir hennar sem hafa bragðað þennan rétt standa á öndinni yfir bragðinu sem kitlar bragðlaukana. Það má með sanni segja að rifin séu tryllingslega ljúffeng. Sjöfn fékk Önnu Björk til að ljóstra upp uppskriftinni af þessum sælkera haustrétti sem vert er að prófa.
„Haustið er fallegur tími og litirnir sem náttúran sýnir okkur eru dásamlegir, rafgulir, koparbrúnir og dökkrauðir. Með þeim kemur uppskerutíminn og allt sem þú settir í jörðina í vor, rétt eftir að frostið gaf sig og sólin sendi þér fyrsta ylinn, er fullþroskað og tilbúið. Hvort sem er til að njóta núna strax eða undirbúa og eiga, eins og smáskammt af sumri í krukku, þegar veturinn æðir úti. Haustið er líka tíminn fyrir kertaljós og hægeldaðan mat. Dásamlegar súpur fullar af næringu og hita eða góður biti af kjöti sem hefur mallað í krydduðu soði daglangt og hreinlega rennur af beinunum. Ilmurinn af honum fyllir þig svo mikilli tilhlökkun að hún er að æra þig, loksins þegar þú sest að borðinu og færð að smakka. Við sýnum auðvitað náttúrunni virðingu og sóum engu af því sem við fáum frá henni og nýtum allt, líka ódýru skrýtnu bitana af kjöti sem við vitum ekki alltaf hvað við eigum að gera við. Þessir bitar henta mjög oft vel í hægeldun, eins og til dæmis nauta stuttrif, sem eru einmitt tilvalin til þess. Það er hægt að panta þau í góðum kjötbúðum,“ segir Anna Björk full eftirvæntingar enda er hún að fara að undirbúa nauta stuttrifin saðsömum.
Hægelduð nauta stuttrif að hætti Önnu Bjarkar
2 kg. nauta stuttrif, skorin í sundur á milli beinanna
1 ½ tsk. gróft sjávarsalt
1 ½ tsk. nýmalaður svartur pipar
1 meðalstór gulrót, í stórum bitum
1 meðalstór steinseljurót, í stórum bitum
1 ½ msk. hveiti
1 msk. olía til að steikja úr
1 msk. tómatmauk
1 ½ msk. kínverskt five spice krydd
1 flaska þurrt rauðvín
1 l gott nautasoð (broth), fæst í fernum t.d. í Krónunni
1 lítill laukur skorinn í geira
5 sóló hvítlaukar skornir í tvennt
¼ bolli kóríanderlauf, geyma stilkana
2 lárviðarlauf
Byrjið á því að hita bakarofninn í 180°C gráður. Rifin eru skorin eftir endilöngu á milli beinanna. Þau eru söltuð og pipruð og lögð til hliðar í 30 mínútur. Rifunum er velt upp úr hveiti og þau ristuð á stórri djúpri pönnu upp úr olíunni, á öllum hliðum. Það þarf kannski að gera þetta í tvennu lagi, svo pannan haldist nógu heit allan tímann. Sett til hliðar á disk. Tómatmaukið og Five spice kryddið er sett á pönnuna og steikt þar til það fer að ilma í um það bil 1 mínútu, þá er rauðvíninu hellt út á pönnuna og látið malla í 10 mínútur. Síðan er gulrót, steinseljurót, lauk, hvítlauk, kóríander stilkum, lárviðarlaufum og soði bætt á pönnuna. Rifunum er komið vel fyrir í soðinu og lok sett á. Stungið í ofninn og látið malla með loki í 2 klukkustundie. Þá er lokið tekið af og látið malla áfram í ofninum í 1 klukkustund til viðbótar, eða þar til kjötið nánast rennur af beinunum. Rifin eru tekin upp úr og haldið heitum. Soðinu og grænmetinu er hellt í pott með og soðið niður í um 10 mínútur, þá er sósan maukuð með töfrasprota og borin fram með rifjunum og rótarmaukinu.
Steinselju- og gulrótarmauk
3 meðalstórar gulrætur, skrældar og skornar í meðalstóra bita
3 meðalstórar steinseljurætur, skrældar og skornar í meðalstóra bita
¼ bolli rjómi
¼ bolli mjólk
1 tsk. salt (bæði til að setja í suðuvatnið og krydda með)
2 msk. smjör
½ tsk. ný rifin múskathneta
Steinselju- og gulrótarmauk
SteinseljÖu- og gulræturnar eru skrældar og soðnar í söltu vatni í um 15-20 mínútur. Vatninu er hellt af þeim og þær settar aftur í pottinn. Mjólk, rjóma, smjöri og kryddi er bætt í pottinn og maukað slétt og flauelsmjúkt með töfrasprota eða sett í matvinnsluvél, smakkað til. Sett í skál og kóríanderlaufunum dreift yfir.
Njótið réttarins með góðu rauðvíni í góðra vina hópi.
Myndina af Önnu Björk tók Unnur Magna ljósmyndari