Við litum inn til hennar Kristínar Edwald hæstarréttalögmanns LEX og fagurkera með meiru sem er okkar Martha Stewart fyrir snilld sína í eldhúsinu. Kristín hefur dálæti af því að setja saman ljúffengar veigar og bera þær fram á fallegan og hrífandi hátt. Henni er margt til lista lagt þegar kemur að bakstri, matreiðslu og drykkjarföngum og allt sem hún gerir er metnaðarfullt og aðlaðandi. Þegar okkur bar að garði að þessu sinni var Kristín búin að galdra fram guðdómlega góðar og hollar bláberja- og haframúffur sem eiga einstaklega vel við þegar haustið ber að garði.
„Mér finnst ofboðslega gaman að gera tilraunir í eldhúsinu um helgar áður en krakkarnir vakna. Þau verða alltaf svo glöð þegar þau koma niður stigann og sjá eitthvað nýbakað á borðinu. Grunnurinn að þessari uppskrift er af pinterest en ég breytti henni dálítið, til dæmis minnkaði ég sykurmagnið, notaði spelt í staðinn fyrir hveiti, bætti í banana og notaði skyr.“
Bláberja- og haframúffur
1 bolli haframjöl
1 msk. hunang eða agave síróp
1 bolli grísk jógurt eða skyr (ég notaði skyr með bökuðum eplum í þetta skiptið)
2 msk. olía
1 egg
1 bolli gróft spelt
1 þroskaður banani
1 tsk. lyftiduft
½ tsk. matarsódi
¼ tsk. salt
1 bolli frosin bláber
Hitið bakaofninn í 220°gráður. Byrjið á að blanda haframjöli, hunangi, jógúrt, olíu og eggi saman í skál. Látið blönduna standa í 10 mínútur þannig að haframjölið blotni vel. Bætið síðan stöppuðum banana, spelti, lyftidufti, matarsóda og salti saman við. Hrærið ollu saman með sleif, þannig að það blandist en ekki hræra of mikið. Bætið svo frosnum bláberjum varlega út í. Setjið deigið í 12 múffuform og bakið á 200°C hita í u.þ.b. 20-22 mínútur. Múffurnar eru nægilega bakaðar þegar prjónn sem stungið er í þær kemur hreinn út.
„Þessa uppskrift mun ég örugglega gera aftur og prófa þá að nota aðra tegund af berjum eða frosnum ávöxtum. Bláberin koma svakaleg út en mér finnst bara svo gaman að prófa mig áfram,“ segir Kristín og er alsæl með útkomuna.
Njótið vel.