Fyrsti í aðventu er um helgina og þá er lag að huga að gæðastundum með sínum uppáhalds. Aðventan er heillandi tími og margir eiga góðar minningar tengdar aðventunni sem hlýja og gefa. Aðventan er tími til að njóta, skapa og útbúa ljúffengar kræsingar, líka tími til að búa til minningar með komandi kynslóðum.
Sjöfn Þórðar heimsótti Önnu Björk Eðvarðsdóttur formann Hringsins og matar- og sælkerabloggara með meiru og bað hana um að svara nokkrum spurningum tengdum aðventunni og undirbúningi jólanna á hennar heimili. Önnu Björk er margt til lista lagt og fegurð er í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er mikil jólamanneskja og kann að njóta í fallegan hátt. Heimilið hennar ber þess sterk merki og eldhúsið er einstaklega heillandi og ljóst að þar eru sælkerar á ferð. Sjöfn fékk Önnu Björk til að baka eina af sínum uppáhalds kökum og eiginmannsins sem hún bakar í aðventunni fyrir lesendur og svipta hulunni af uppskriftinni um leið. Anna Björk töfraði þessar ómótstæðilegu og ljúffengu kökur sem bráðna í munni og gleðja sælkera hjörtu.
Bakar þú mikið?
„Ekki lengur, við erum bara tvö í heimili svo það hefur minnkað. En, við eigum okkur samt sitthvora uppáhalds smákökuna. Ég baka einn skammt af hvorri sort, það dugar yfirleitt. En dæturnar eru komnar með sín eigin heimili og eru duglegar að baka og koma stundum með box af einhverju góðu sem þær eru að prófa, það er skemmtilegt. Svo fæ ég alltaf heimabakað rúgbrauð og saffranbrauð frá mömmu fyrir hver jól.“
Eiga kökurnar sem þú bakaðir einhverja sögu?
„Kakan sem ég held mest uppá er Flórentínan. Ég elska Flórentínur, möndlur, þunn karamella og súkkulaði, hvað er ekki að elska? Þegar ég er erlendis kíki ég alltaf í kökubúðir og bakarí og til að skoða og smakka hvernig Flórentínurnar eru þar. Það eru til allskonar útgáfur. Svo finnst mér svo skemmtilegt að Flórentínan á sér langa sögu, hún er frönsk, ekki Ítölsk eins og nafnið vísar í. Sagan segir að bakarameistari Lovðíks 14 Frakklandskonungs, hafi útbúið hana til heiðurs heimsóknar Medici fjölskyldunnar frá Flórens, til konungs í Versölum og var hún kölluð Flórentína þeim til heiðurs,“ segir Anna Björk og er einstaklega ánægð með franska uppruna Flórentínunnar.
„Guðjón heldur uppá súkkulaðibitaköku sem mamma bakaði alltaf þegar ég var krakki. Þessi útgáfa var kölluð Gústukaka á mínu heimili, eftir konunni sem mamma vann með og gaf henni uppskriftina. Ég elska þessa köku reyndar líka, hún minnir mig á mín æskujól.“
Er mikið haft fyrir jólunum á þínu heimili?
„Já og nei. Ég er alin upp við það að allt á að vera tilbúið og komið í ró þegar Jólahátíðinni er hringt inn i útvarpinu klukka 6 á Aðfangadag. En, ég er farin að róast mikið, þori samt ekki að segja alveg, en er alveg hætt að keyra mig á kaf í undirbúningi og skrúbba allt með eyrnapinnum fyrir jólin, ég bíð með það þangað til það fer að birta og vorsólin fer að kíkja inn um gluggana. Ef ég næ ekki að gera eitthvað, þá er það bara þannig, jólin koma samt. Maður verður slakari með aldrinum af því maður veit að mestu skiptir að vera glaður og ánægður með fólkinu sínu, ekki úttaugaður og tættur af stressi, af því það þurfti að gera svo mikið af öllu. Ég hef mjög oft farið í messu, til að fá jólaandann í æðarnar og sálina. En, næst best er að hlusta á kirkjuklukkurnar hringja inn hátíðina í útvarpinu, ég fæ stundu kökk í hálsinn þegar ég heyri í þeim.“
Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?
„Að hafa fjölskylduna hjá mér og ömmustrákarnir lífga svo sannarlega uppá hátíðina. Svo er það ilmurinn, kertaljósin, jólatónlistin, borða jólamatinn, sem ég elda bara á Aðfangadagsvöld. Toppurinn er að fá mér sherrýfrómasinn í morgunmat í rúminu á jóladagsmorgun, það er eiginlega orðin hefð hjá mér.“
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
„Já, ég á eina mjög gamla jólakúlu sem Anna, móður amma mín og nafna átti, hún er alltaf hengd á jólatréð hjá mér. Við erum búin að vera með sama toppinn á jólatrénu eiginlega allan okkar búskap. Hann var keyptur í Harrod´s í London fyrir löngu síðan. Virðulegur „Faðir Jólanna“ hvítur og gylltur. Hann er vandlega geymdur í upprunalegu umbúðunum í bílskúrnum.“
Áttu þér uppáhalds jólalag?
„ppáhaldslög eiginlega, það er eiginlega ekki hægt að taka bara eitt til. Það er erfitt að gera upp á milli þeirra. Ég hlusta alltaf mikið á tónlist og sum tónlist dregur fram minningar Ég verð svolítið væmin þegar jólatónlist er annars vegar og fæ alltaf tár í augun þegar ég heyri „Ó helga nótt“, eða „Dansaðu vindur“, með Eivör. „Ef ég nenni“, með Helga Björns., er orðin klassík, ég gæti haldið áfram endalaust.“
Heldur þú í hefðir í jólaundirbúningnum og/eða um jólin?
„Ó, já, heldu betur, ég er aldrei eins vanaföst og þá. Ég lesa uppáhalds jólasöguna mína „Jóladraumur“ eftir Charles Dickens, það er ómissandi, svo er hún svo góð áminning. Við lásum hana oft fyrir stelpurnar okkar þegar þær voru litlar. Ef ég fengi ekki vel kæsta skötu og brúnaða hamsa í hádeginu á Þorláksmessu, kæmist ég ekki í réttu stemminguna. Við förum með mömmu og stjúpa í hádeginu á Þorláksmessu í Hlégarð, þar hittum sem við fullt af bæjarbúum, sem er mjög skemmtileg stemming. Ég ólst upp við það að mamma var alltaf búin að setja hreint og stíf straujað á sængina mína á Þorláksmessukvöld. Silki damask með fíngerðri blúndu, sem hún hafði heklað sjálf. Oft lágu ný náttföt, fallega saman brotin á nýstraujuðu verinu til að fara í eftir jólabaðið á Þorláksmessukvöld. Þetta er hefð sem ég lagði mikið upp úr að halda í á mínu heimili og gerði alltaf fyrir dætur mínar. Mér finnst fátt vera jólalegra og sýna eins mikla ást og alúð en að búa fallega um jólasængina.“
Um Önnu Björk – Uppáhaldslistinn
Maki: Guðjón Magnússon
Börn:Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir, Ingibjörg Sigríður Guðjónsdóttir og Rut Margrét Guðjónsdóttir.
Gæludýr: Bella, Labradorinn hennar Ingu minnar og svo auðvitað hestarnir okkar allra í fjölskyldunni.
Uppáhaldsjólamynd: It´s a Wonderful Life og National Lampoons Christmas Vacation
Ómissandi á aðventunni: Jólakaffi- og jólahappdrætti Hringsins í Hörpu.
Jólamatur: Bacon vafinn humar með ristuðu brauði og Chantilly sósu. Aligæs fyllt með kartöflum, steiktum upp úr gæsafitu með sítrónuberki og salvíu, Calvados sósu og eplasalati. Og í eftirrétt eru Sherrýfrómas og Toblerónís.
Jóladrykkur: Kampavín
Hvít eða rauð jól? Hvít
Hér ljóstrar Anna Björk upp uppskriftunum af uppáhald kökunni sinni og eiginmannsins.
Flórentínur með súrum kirsuberjum, súkkulaði og salti
25-30 stykki
75 g smjör
5 msk. hrásykur
3 msk. síróp
3 msk. hveiti
150 g salthnetur, grófsaxaðar
50 g möndluflögur
40 g þurrkuð súr kirsuber, fínsöxuð
100 g hvítt súkkulaði
50 g suðusúkkulaði
Gróft salt
Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Ofnplötur gerðar klárar með bökunarpappír á. Smjörið og sírópið er hitað í potti með sykrinum þangað til sykurinn er bráðinn. Þá er hveiti, hnetum og súru kirsuberjunum blandað saman við. ½ teskeið af deigi er dreift með góðu millibili (þær renna töluvert) á bökunarplötu og bakað í um það bil 7 mínútur (athugaðu vel hitann á þínum ofni, ofnar eru ólíkir og þær dökkna fljótt). Kökurnar eru látnar kólna smástund áður en þær eru teknar af plötunni og kældar á grind. Fyrst bræði ég hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og drussa því yfir kökurnar með teskeið, síðan dökka súkkulaðinu og í lokin grófa saltinu. Ef þú ætlar að geyma þær er gott að hafa smjörpappír á milli laga í kökuboxinu. Himneskar að njóta og bræða öll sælkerahjörtu.
Gústukökur
30-40 stykki
1 bolli smjör, við stofuhita
12 msk. sykur
12 msk. dökkur púðursykur
2 egg
2 ½ bolli hveiti
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
vanilludropar, smakka til
Salt, á milli fingra
200 gr. suðusúkkulaði 56%
200 gr. möndlur með hýði, saxaðar
Byrjið á því að hita ofninn í 210°C. Pappírsklæddar ofnplötur gerðar klárar. Smjör, sykur og púðursykur, eru þeytt saman létt og ljóst. Síðan er eggjunum blandað saman við smjörið og loks er þurrefnunum blandað saman í skál og hrært varlega saman við smjörið. Smakkað til með vanilludropum og ögn af salti. Hneturnar og súkkulaðið er gróft saxað og hrært í með sleif. Deigið er sett með jöfnu millibili á ofnplötu um það bil. 1 vel full teskeið í hverja köku. Bakað í um það bil 8 mínútur. Settar á grind og látnar kólna. Geymast í lokuðu boxi.
Bragðast ómótstæðilega vel og njóti aðventunnar.